151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[18:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér stórt og mikið mál og það hefur verið athyglisvert að fylgjast með málflutningi hér í upphafi, sérstaklega hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem hafa komið hingað upp og flutt ræður þess efnis að þeir séu á móti þessu máli. Það vekur náttúrlega upp spurningar um hvers vegna þeir stöðvuðu ekki málið á fyrri stigum, sem þeir hefðu hæglega getað gert, einfaldlega með því að þetta mál hefði ekki verið í stjórnarsáttmálanum og því ekki hleypt alla leið inn í þingsal þar sem þeir ætla að hlaupast undan ábyrgð. Sjálfsagt munu Vinstri græn draga vagninn í þessu og fá væntanlega liðsinni Samfylkingarinnar og Viðreisnar til að koma málinu í gegn.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst framkoma Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í þessu máli mjög einkennileg, að hafa ekki lagst gegn því að málið kæmi hingað inn en að ætla svo að hlaupast undan merkjum þegar það er komið hingað. Ábyrgð þeirra er nú töluverð í þessu máli. Það er rétt að þeir hafi það í huga sem eiga hagsmuna að gæta í málinu. Þar á ég sérstaklega við sveitarfélögin sem eiga umráðasvæði sitt á því svæði sem stendur til að friðlýsa.

Hálendi Íslands er sannarlega ómetanleg náttúra, ég held að við getum öll verið sammála um það, með hinum mikla fjölbreytileika, landslaginu og hinum miklu óbyggðu víðernum. Þetta eru að sjálfsögðu mikil verðmæti sem þjóðin á. Aðdráttaraflið mun að sjálfsögðu aukast með árunum. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég sé hins vegar ekki að nauðsynlegt sé að gera hálendið að þjóðgarði. Ég sé heldur ekki að það geti skipt sköpum við endurreisn ferðaþjónustunnar eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt. Vissulega er endurreisn ferðaþjónustunnar okkur afar mikilvæg, við bíðum öll í ofvæni eftir því að sú endurreisn hefjist og vonandi verður hún fljótlega á nýju ári. En ég sé ekki að rökstutt hafi verið sérstaklega í þessari umfjöllun að hálendisþjóðgarður skipti þar verulegu máli.

Hér hefur komið fram að áform umhverfisráðherra séu gerð í andstöðu við sveitarfélögin sem hafa hagsmuna að gæta. Þá eru þessi áform í andstöðu við sjálfstæði sveitarfélaganna sem varið er í stjórnarskránni. Að fara fram með málið með þessum hætti er þá í andstöðu við það. Þetta snýst ekki síst um skipulagsvald sveitarfélaganna og umráð þeirra samkvæmt þjóðlendulögum. Fram hjá því er ekki hægt að horfa. Ég nefndi það sérstaklega að sveitarfélögin á Suðurlandi hafa lýst andstöðu sinni við áformin. Ég nefndi það í andsvari við hv. þm. Guðjón Brjánsson rétt áðan að ég hef nýjar upplýsingar þess efnis að ekki hafi verið haft nægilegt samráð við sveitarfélögin þrátt fyrir orð umhverfisráðherra um að svo hafi verið gert. Þau kannast ekki við það. Og það er rétt að það komi hér fram og mikilvægt að á því verði gerð bragarbót. Ég veit til þess að sveitarfélögin á þessu svæði munu senda frá sér yfirlýsingu þess efnis innan skamms.

Ef ég vík aðeins að sveitarfélaginu Bláskógabyggð þá krefst það þess að áform um stofnun þjóðgarðs fari í umhverfismat og að mat verði lagt á umhverfisþætti, þar á meðal samfélag, umhverfi, menningarminjar, kostnaðaráhrif o.s.frv. Nauðsynlegt er að meta þá þætti þar sem hvorki hefur farið fram samráð né greining á kostum þess og göllum að stofna þjóðgarð. Bláskógabyggð hefur á fyrri stigum málsins skilað inn athugasemdum við allar tillögur þessarar þverpólitísku nefndar varðandi einstaka áhersluþætti og frumvarpsdrög. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ítrekaði fyrri athugasemdir sínar og þá afstöðu að hún legðist alfarið gegn áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu líkt og frumvarpsdrögin gera ráð fyrir. Helstu athugasemdir sem sveitarfélagið hefur sett fram eru að inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga sé of mikið þar sem stjórnunar- og verndaráætlanir gildi framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga og aðkoma sveitarfélaga að stjórnun þeirra svæða sem liggja innan þeirra marka verði ekki nægileg miðað við áform í frumvarpsdrögunum. Bláskógabyggð ítrekar fyrri efasemdir sínar um að fyrirheit um fjármagn og væntanlegar tekjur standist og bendir enn og aftur á þann tvískinnung sem felst í því að byggja annars vegar á sjónarmiðum um friðun og verndun, umhverfis- og loftslagsmál, og hins vegar sjónarmiðum um þjóðhagslega hagkvæmni sem sé fólgin í því að skapa sterkt vörumerki sem laði að fjölda fólks. Þá átt er við vörumerkið sem fælist í þjóðgarðinum. Þá er bent á að aðgengi almennings að landsvæðum innan þjóðgarðs verði takmarkað með gjaldtöku og aukinni stýringu. Þá er viðbúið að við það að svæðið verði á forræði ríkisstofnunar, þjóðgarðs, muni draga úr framlagi sjálfboðaliða sem til þessa hafa lagt fram vinnu og fjármuni til gróðurverndar og uppgræðslu, merkinga og þjónustu við þá sem fara um svæðið. Síðan gerir sveitarfélagið Bláskógabyggð athugasemdir við víðtækar heimildir ráðherra til að setja reglugerðir er varða mörk, friðlýsingu og fleira. Þetta er mjög skýrt, frú forseti. Þarna er sveitarfélag sem þekkir mjög vel til þessara mála og nú ætti að hlusta vel á athugasemdir þess og eiga gott samstarf við sveitarfélagið en á það hefur skort.

Í umsögnum um frumvarpið hefur komið fram, og þó einkum af hálfu sveitarfélaganna, að málið hafi lítið verið rætt í samráði. Það eru að sjálfsögðu ekki nógu góð vinnubrögð, eins og ég hef komið hér inn á, og boða ekki gott. Traust skiptir miklu máli í málum sem þessum, að á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna ríki traust. Samskipti þjóðgarða og helstu hagsmunaaðila hafa verið skoðuð í bandarískum rannsóknum eins og ég kom inn á áðan í andsvari. Þar má nefna rannsókn þar sem rætt var við 420 manns. Byggt var á eins árs þátttökuathugun í þremur stórum þjóðgörðum. Þar kemur fram að eftirtalin atriði séu talin mikilvægust ef skapa eigi traust: Að stjórnendur þjóðgarða séu opnir fyrir framlagi heimafólks, að menningu, atvinnu og hefðum grannbyggða sé sýnd virðing, að bein og óformleg samskipti eigi sér stað við heimafólk og svo að skyldum við stjórnun garðsins sé sinnt af fagmennsku og festu. Í erlendum rannsóknum er jafnframt bent á að mikilvægt sé að persónulegt traust myndist milli heimafólks og stjórnenda þjóðgarða. Einnig skiptir það máli sem kalla mætti kerfislægt traust, þ.e. að stuðst sé við sanngjarnt og gegnsætt ferli þegar ákvarðanir eru teknar. Það er ferli sem ætlast er til að fylgt sé þegar búið er að stofna þjóðgarð.

Ég tel, frú forseti, nauðsynlegt að minnast á þetta hér vegna þess að það hvernig staðið hefur verið að þessu máli veit bara ekki á gott. Samráðsleysi hefur ríkt við undirbúning málsins. Það er að sjálfsögðu ámælisvert ef ríkisvaldinu og sveitarfélögunum ber ekki saman um þetta samráð. Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að hann hafi haft samráð og að hann hafi lagað þau atriði sem sveitarfélögin gátu ekki sætt sig við. Ef maður ræðir hins vegar við sveitarfélögin um þetta þá kannast þau ekki við það. Hér er einhver pottur brotinn sem verður að fá botn í við vinnslu málsins innan nefndarinnar.

Gerðar hafa verið fleiri rannsóknir á trausti og samskiptum þegar kemur að stofnun þjóðgarða og friðlýsingu landsvæða. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði eina slíka rannsókn og gaf út skýrslu í desember á síðasta ári, eða fyrir réttu ári síðan, um náttúruvernd og byggðaþróun og áhrif verndarsvæða á grannbyggð. Stofnunin gerði svokallaða viðtalsrannsókn þar sem tekin voru samtals 16 viðtöl sem sneru að Vatnajökulsþjóðgarði og rætt var við þá sem hagsmuna eiga að gæta, svo sem fulltrúa sveitarfélaga, ferðaþjónustufyrirtækja, atvinnuþróunarfélaga, landeigenda og núverandi og fyrrverandi starfsmenn þjóðgarðsins. Spurt var úti í bæði góð og slæm áhrif þjóðgarðsins, helstu tækifæri og ógnanir og hvernig svarendur skynjuðu samskipti þjóðgarðs við heimafólk. Það verður að segjast eins og er að í þeirri viðtalsrannsókn kemur fram að margir óttist boð og bönn og vilji að meira samráð verði haft við heimafólk á öllum stigum ákvarðana um friðlýsingu svæða. Djúpstætt vantraust er rauði þráðurinn sem gengur í gegnum öll þessi viðtöl. Því er lýst að yfirleitt sé vísað til þeirra sem koma að stjórn þjóðgarðsins, og náttúruvernd almennt, úr fjarlægð. Það eru alvarleg orð og þau verður að taka til skoðunar innan nefndarinnar. Ef það er rauði þráðurinn í samskiptum forsvarsmanna þjóðgarðanna og friðlýstra svæða við heimamenn erum við í virkilegum vanda stödd. Ég held að af nógu sé að taka í þeim efnum að vinna aftur það traust frekar en að eyða kröftunum í að stofna annan þjóðgarð.

Það er rétt að taka fram að í þessari rannsókn kemur fram að mun meiri ánægja sé með samskipti við starfsfólk á svæðinu sem á þar heima og er í persónulegum samskiptum við íbúana. Það er rétt að fylgi hér með líka. Viðmælendur vísuðu m.a. til þess að samkvæmt upphaflegri hugmynd hefði þjóðgarðurinn ekki átt að vera ríki í ríkinu. Það er einmitt það sem ég held að hafi gerst í þessum málum og fólk óttist það verulega að þetta verði nokkurs konar ríki í ríkinu. Það hefði frekar átt að vinna með heimafólki, vera nokkurs konar aflgjafi í samfélaginu. Ef marka má svör viðmælenda virðist sú hugsun ekki almennt hafa náð að skila sér til íbúa á svæðinu. Menn óttast að þarna sé nokkurs konar ríki í ríkinu. Við eigum að hlusta á þetta. Rannsóknirnar eru gerðar til að kanna viðhorf fólks gagnvart ákveðnum málefnum. Hér er það gert með faglegum hætti. Það er nauðsynlegt, frú forseti, að nefndin fari í saumana á þessari skýrslu og sjái að greinilega er pottur brotinn í þessum samskiptum. Ég held að í þessu máli hafi nákvæmlega það gerst að þegar kemur að samráði sé pottur brotinn í samskiptum við hagsmunaaðila, heimamenn og þá sem standa næst verkefninu. Það er engan veginn nógu gott og það er ekki vænlegt til árangurs.

Ég hef sagt það og segi það enn og aftur að við eigum að verja kröftum okkar í það að vinna betur að samskiptum og sátt við heimamenn gagnvart þeim friðlýstu svæðum sem eru nú þegar til staðar og þeim þjóðgörðum sem þegar er búið að stofna. Margt þarf að laga í þeim. Ég nefni t.d. bara þjóðgarðinn okkar (Forseti hringir.) ástsæla á Þingvöllum. Þar er margt sem þarf að laga. (Forseti hringir.) Að beina síðan kröftunum í það að stofna enn einn þjóðgarðinn (Forseti hringir.) held ég að sé ekki tímabært og ekki skynsamlegt.