151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[19:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir þessar vangaveltur eða spurningar, aðallega varðandi mistök, held ég. Þegar ég nefndi í ræðu minni að að þarna yrðu gerð mistök átti ég í raun og veru við að við værum að stíga allt of stórt skref. Ég held að ég hafi náð að skýra það út í ræðu minni. Við erum að stíga stórt skref miðað við reynsluna sem við höfum. Við höfum mjög litla og skamma reynslu af rekstri þjóðgarða eins og Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég man nú ekki hvað hann er gamall en reynslan er mjög lítil. Við höfum ekki rekið þjóðgarð í mjög langan tíma, ekki af þeirri stærðargráðu sem Vatnajökulsþjóðgarður er og langt í frá þeirri sem við erum að fara út í núna.

Orð mín má skilja þannig, hv. þingmaður, að við erum með opin augu að ganga of langt og miklu lengra en við höfum burði til. Það á ég við þegar ég tala um mistök. Þetta eru stór mistök. Þetta eru ekki einhver smávægileg mistök sem verða að sjálfsögðu í rekstri allra hluta, heldur erum við vitandi vits að ganga of langt, miklu lengra en ég tel skynsamlegt að gera að svo stöddu. Ég tel miklu skynsamlegra að stækka fyrirliggjandi þjóðgarða eins og Vatnajökulsþjóðgarð, afla meiri reynslu, standa betur að honum, efla og þróa samskipti við sveitarfélögin í nágrenninu og samskipti við alla þá aðila sem þar eru en að ganga svona langt. Það er einungis það sem ég á við þegar ég tala um mistök. Við erum að ganga allt of langt.