151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, 23. gr. kveður að mínu mati hreinlega á um orkunýtingarsjónarmiðin þegar kemur að miðhálendinu. Þó svo að hér sé að einhverra mati verið að ná einhverjum áfangasigri með því að ýta þessum virkjunarkostum inn á svokölluð jaðarsvæði í þjóðgarði, þá getur varla farið saman að mega hafa virkjunarkosti með öllu sínu raski öðrum megin við hól eða hæð og tilgreina svo hinum megin svæði sem er þá óbyggt víðerni. Það er svolítið sérstakt að í frumvarpi sem kveður á um verndun óbyggðra víðerna miðhálendisþjóðgarðs sé svona mikið púður lagt í að tala um nýja virkjunarkosti.

Ég spyr líka á móti: Hver er þörf okkar þegar kemur að rafmagni og virkjunarkostum? Ég tel að þetta geti varla farið saman nema þá að það sé útpælt hver þörf okkar sé og hvort virkilega sé þörf á því að galopna í þessu frumvarpi fyrir virkjunarkosti á Hveravöllum til að mynda, eða Hágönguvirkjun eða Núpsárvirkjun eða Hverfisfljótsvirkjun sem eru umdeildir virkjunarkostir nú þegar. Við eigum eftir að fjalla um rammaáætlun hér í þingsal en hérna í þessu frumvarpi er verið að árétta möguleika á því að fara megi í nýja virkjunarkosti á jaðri þjóðgarðsins. Ég tel, herra forseti, og hv. þingmaður, að þetta fari hreinlega bara ekki saman vegna þess að í þá áratugi sem barist hefur verið fyrir lögum um miðhálendisþjóðgarð hafa náttúruverndarsjónarmið (Forseti hringir.) ávallt verið rauði þráðurinn og kjarninn í þeirri baráttu (Forseti hringir.) en ekki að skilgreina nýja virkjunarkosti í jaðrinum og svo framvegis. (Forseti hringir.)