151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega sama gallaða rökhugsun og ég var einmitt að lýsa. Ef við tökum álframleiðsluna og flytjum hana burt þá tökum við eitthvað annað inn í staðinn og notum framleiðslu þar á nákvæmlega sama hátt. Kolefnismunurinn er í versta falli sá sami og afleidd áhrif yrðu af nýja iðnaðinum alveg eins og þau voru af hinum. Nei, ég er ekki að segja það, augljóslega ekki. Það sem ég er að reyna að segja er að það er 300 milljarða munur á sölu á orkunni hér á Íslandi — þetta var samkvæmt útreikningunum hjá mér 2014 — og í Bretlandi. Það þýðir að við næðum 300 milljörðum meira í virðisaukningu fyrir orkuna okkar á annars konar markaði en við erum með hér á Íslandi. Það þýðir að við erum að nýta verðmætasköpunina af orkunni okkar á mjög slæman hátt miðað við næstu nágranna okkar. Við getum ekki selt hana um sæstreng af því að sæstrengur er bara gjörsamlega galin hugmynd en við hljótum þá að geta gert betur í verðmætasköpuninni á Íslandi til að ná þessum 300 milljörðum eitthvað aðeins til baka af álfyrirtækjunum.