151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni andsvarið. Upplifir hv. þingmaður sem sat einmitt í þeirri nefnd sem ég sagði mig úr á endanum, eða frá þeim störfum, að hagaðilar séu sammála því mati að tekið hafi verið tillit til sjónarmiða? Það er alls ekki raunin og sá tónn hagaðila hefur raunar, heyrist mér, ágerst frá því í fyrra, hvort sem það eru ferðaþjónustuaðilar, útivistarsamtök eða sveitarfélög sem næst standa. Við sjáum til að mynda að það sveitarfélag sem hafði mestar skoðanir á málinu á frumstigum, Bláskógabyggð, hvikar í engu frá þeim sjónarmiðum núna og það er fólk sem ég fullyrði að er að lesa þetta staf fyrir staf, öll undirliggjandi plögg. Þetta ágæta fólk er ekkert að kasta til hendinni í gagnrýni sinni. Ég verð nú að viðurkenna að ég held að þar sé litrófið allt í pólitíkinni með efasemdir um framkvæmdina eins og í stefnir. Svo er það nú alveg kapítuli út af fyrir sig, sem ég kann ekki við að fara yfir hér í pontu, hvernig það kom til að ég sagði mig frá starfi nefndarinnar undir lok þeirrar vinnu. Það samtal getum við hv. þingmaður átt hér í hliðarsal ef áhugi er á þeirri útskýringu.