151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er sjálfsagt hyggilegt að við eigum það samtal bara í hliðarsal. En það sem ég heyrði hv. þingmann segja í dag, ég held í fyrri ræðu sinni, fannst mér ekki gott, að það hefði ekkert verið gert með sjónarmið nefndarmanna. Ég man ekki betur en að sjónarmið hv. þingmanns hafi verið tekin alveg jafngild og annarra þegar við nefndarmenn vorum að ræða þessi mál okkar í milli, auðvitað í því markmiði að reyna að ná saman. Við vorum alltaf að reyna að tala okkur saman en ekki sundur. Hitt er alltaf voðalega auðvelt, að tala sig í sundur. Það kom mér satt best að segja á óvart að hv. þingmaður skyldi ekki verða okkur samferða í lokin. Ég taldi að við hefðum náð að mætast svo víða á réttri leið. Hefur það ekki áhrif að aðilar fengu algerlega tekið tillit til sjónarmiða? Í fyrsta lagi nefni ég að fulltrúar sveitarfélaganna stóðu með skýrslunni, stóðu með álitinu með okkur. Í öðru lagi nefni ég, og þar hef ég heyrt í sveitarfélögum, að þau eru mjög ánægð með þá breytingu sem umhverfisráðherra gerði eftir samráð við þau um skipulagsþáttinn, að verndar- og nýtingaráætlun sé ekki bindandi fyrir sveitarfélögin þegar kemur að frágangi skipulaga þeirra. Ætli Bændasamtökin séu ekki ánægð með að hlustað var á sjónarmið þeirra og þau eigi núna sína fulltrúa í öllum umdæmisráðunum og í stjórn þjóðgarðsins? Er það ekki að taka tillit til óska manna? Það var ekki í upphaflegum drögum, ekki í upphaflegum hugmyndum og er ekki í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég get nefnt fjölmörg svona dæmi um hluti þar sem tekið var tillit til sjónarmiða. Upprekstrarfélögin og veiðifélögin, það var sérstaklega gert ráð fyrir að hægt væri að semja við þau. Það tókum við inn í tillögu okkar. Útrétt hönd til þeirra sem eru með starfsemi á svæðinu, að við viljum hafa þá sem samstarfsaðila í þessu verkefni, endurspeglast í 20. gr. frumvarpsins. Og ég gæti haldið svona lengi áfram en ég skal koma nánar inn á þetta, herra forseti, í ræðu minni hér á eftir.