152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

verkefni Landspítalans.

[10:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta hér upp. Og já, ég hef ekki bara séð og lesið þessi orð nýskipaðs forstjóra, heldur hef ég einnig rætt þetta við hann og þetta er það sem blasir við að þarf að fara í, að skoða alla heilbrigðisþjónustuna í einhvers konar samhengi. Það samhengi skiptir öllu máli þegar kemur að öllum þeim aðgerðum, skimunum, liðskiptaaðgerðum, sem hv. þingmaður kom hér inn á, að skilgreina hlutverk Landspítalans sem hefur mjög víðtækt hlutverk, og samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs aðgerðir. Við þurfum að nýta alla þekkinguna sem er í kerfinu og samningarnir þurfa að byggja á því að það verði samvinna og samspil í þessu kerfi okkar öllu þannig að við nýtum þá þessa takmörkuðu auðlind sem um ræðir, sem er mannauðurinn okkar, sem stendur býsna framarlega. En af því að hv. þingmaður vísaði í þetta viðtal þá er það takmörkuð auðlind, eins og kom fram í þessu viðtali. Þess vegna byggir þetta allt á því að við nýtum hana hvað best.

Hv. þingmaður kemur hér inn á liðskiptaaðgerðir. Það er markmið okkar allra að sjúklingar geti farið í aðgerðir hér á landi. Það á alveg að ganga upp. En til þess þurfum við að horfa á þetta allt saman í heild sinni. Sú vinna er farin af stað og það samtal er hafið.