152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrirspurnina sem snýr að einhverju marki að sömu hlutum og ég átti orðastað um í fyrri fyrirspurn hér við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Markmið okkar hlýtur að vera, og það er þannig í stjórnarsáttmála, að sjúklingar geti notið þjónustu hér á landi. Það á að heyra til algerra undantekninga að biðin sé svo löng að einstaklingar sjái sér vænlegri kost að ferðast til útlanda í aðgerð. Það er þessi 90 daga biðtími. Þess vegna er svo mikilvægt að við skilgreinum þennan biðtíma og að hann hangi í rökréttu samhengi við það sem telst af læknisfræðilegum ástæðum vera eðlilegt að bíða. Þess vegna þurfum við að hafa skilgreindan biðtíma, við þurfum að hafa miðlæga biðlista þannig að ekki sé verið að setja fólk oftar en einu sinni á biðlistann, og að þær tímasetningar séu alveg gagnsæjar og augljósar öllum sem eru að vinna í kerfinu.

Ég er tiltölulega óþreyjufullur þegar kemur að þessu verkefni. Ég hef ýtt verulega á það, bæði í ráðuneytinu og í samtölum við þá aðila sem þurfa að koma að þessu verkefni og Landspítalinn – háskólasjúkrahús þarf að vera með okkur í því verkefni. Þetta þarf allt að spila saman eftir því hvaða aðgerðir við erum að tala um.

Varðandi liðskiptaaðgerðirnar þá hef ég þær upplýsingar varðandi þennan biðlista, skilgreindan biðtíma og miðlægan biðlista, að búið sé að vinna í honum í einhvern tíma og það líður varla dagurinn án þess að ég spyrji um það. Ég hef safnað saman tölum um það hvernig þetta hefur þróast hjá okkur og hversu margir hafa þurft að fara til útlanda í aðgerðir og ég get ekki með nokkru móti séð annað en að við getum tiltölulega hratt náð utan um þetta mál í samvinnu við alla sem sinna ólíkri þjónustu.