152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir getum verið sammála um eitt: Þessi ríkisstjórn hefur algerlega brugðist íslenskum landbúnaði og matvælaframleiðendum. En ég er ekki alveg viss um að við séum sammála um lausnirnar á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir eftir meira en fjögur ár af þessari ríkisstjórn. Ég ætla að biðja hv. þingmann að hugleiða hvort hún væri ekki til í að hætta að kalla ríkisstjórnarflokkana framsóknarflokkana þrjá, því enginn flokkanna í þessari ríkisstjórn er framsóknarflokkur. Þetta eru þó hugsanlega á sumum sviðum afturhaldsflokkar.

En hvað felst í tillögu hv. þingmanns og meðflutningsmanna? Hvernig á þetta nýja kerfi eiginlega að virka? Stendur til, eins og mér heyrðist á köflum, að fara Evrópusambandsleiðina og greiða bændum jafnvel fyrir að framleiða ekki, fyrir að eyðileggja land, breyta landbúnaðarlandi aftur í mýrar? Mér heyrðist hv. þingmaður ýja að því. Það fyrirkomulag, að greiða bændum fyrir að framleiða ekki, hugnast mér ekki.

Ætlast hv. þingmaður og meðflutningsmenn hennar til þess að íslenskir bændur keppi við risabú, verksmiðjubú í útlöndum sem ráða oft til sín fólk frá útlöndum á lágmarkslaunum og minna en það? Eiga íslensku fjölskyldubúin að fara að keppa við þá framleiðslu? Önnur lönd, t.d. Sviss og Noregur, gera sér auðvitað grein fyrir því að þau þurfa að vernda landbúnaðinn sinn, matvælaframleiðsluna sína, og Evrópusambandið sjálft reyndar. Það má ekki gleyma því að Evrópusambandið er tollabandalag og Ísland stundar frjálsari viðskipti við útlönd heldur en Evrópusambandið. Á Ísland að ríða á vaðið og fórna íslensku fjölskyldubúunum til að prófa einhverja kenningu Viðreisnar?