152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég fagna mjög því sem ég heyri frá hv. þingmanni því að ég verð að viðurkenna að þetta er ekki sá andi sem mér hefur fundist ég heyra hér frá þingmönnum Samfylkingarinnar hingað til. Ég hef frekar skynjað orð þeirra þannig að þeim finnist að þessar ákvarðanir eigi í rauninni bara heima hjá sóttvarnalækni og þar til bærum aðilum.

En aftur á móti: Er þetta sýndarsamráð? Nei, ég tel svo ekki vera, ekki frekar en nokkurt annað samráð. Ég met það svo að það væri virkilega erfitt fyrir heilbrigðisráðherra að koma inn í velferðarnefnd þar sem þingmenn í þeirri nefnd myndu standa á móti því sem þar væri kynnt og þar væri rætt og ætla svo að senda þinginu skýringar á því af hverju hann ætli að bregðast við með þessum hætti, vitandi það að þingið væri almennt á móti því. Ég held að þetta sé mjög góð leið til að auka samtalið, auka samráðið. Ég hygg að þetta sé góð leið til að hæstv. ráðherra geti tryggt pólitíska samstöðu um þær ákvarðanir sem er verið að taka og ég held að þetta sé lýðræðislegri leið. (Forseti hringir.) En ef hv. þingmaður er með enn betri hugmynd þá er ég til í að hlusta á það.