152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stjórnarfarið okkar er auðvitað þannig að ábyrgðin á takmörkun stjórnarskrárvarinna réttinda getur aldrei bara legið hjá sérfræðingum, hún liggur hjá lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Það er alveg á hreinu. Og ef hv. þingmanni dettur í hug að Samfylkingin hafi einhvern tímann talað fyrir öðru en því að það séu lýðræðislega kjörnir fulltrúar, hvort sem þeir eru ráðherrar eða þingmenn, sem axli þá ábyrgð þá er það einhver meiri háttar misskilningur.

Ég vil minna á að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir talaði mjög fyrir því hér á síðasta kjörtímabili, þegar hún gegndi formennsku í velferðarnefnd, að farin yrði sú leið sem ég nefndi hér áðan, að það yrði gert að einhvers konar skyldu að bera íþyngjandi ákvarðanir undir Alþingi innan ákveðins tímafrests. Ég fagna ágætu frumvarpi þingflokks Viðreisnar um þetta og þetta er sú leið sem ég tel mjög mikilvægt að farin verði hér þegar kemur að endurskoðun sóttvarnalaga í vor. (Forseti hringir.) Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um þetta, ég trúi ekki öðru en að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu okkur og Viðreisn sammála um þetta og geti loksins tekið undir þann málflutning sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir hafði uppi hér.