Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur okkur alþingismönnum borist fjöldi tölvupósta þar sem skorað er á Alþingi að greiða fólki með skerta starfsgetu sem reiðir sig á almannatryggingar sómasamlega eingreiðslu í desember skatta- og skerðingarlaust. Ég vil nota tækifærið undir þessum lið til að ávarpa öll þau sem hafa sent tölvupóst og upplýsa aðeins um það hver staðan er á þessum málum hér á Alþingi.

Nú er það þannig að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram frumvarp til fjáraukalaga þar sem gert er ráð fyrir að desembereingreiðslan verði helmingi lægri í ár en í fyrra og það þrátt fyrir að verðbólga sé í hæstu hæðum. Við jafnaðarmenn teljum þetta óboðlegt og munum gera allt sem í okkar valdi stendur hér á Alþingi í samstarfi við aðra stjórnarandstöðuflokka til að knýja fram 60.000 kr. eingreiðslu. Hv. formaður fjárlaganefndar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur sagst vilja gera betur við öryrkja en gert er í þessu frumvarpi. En við í minni hlutanum höfum ekki fengið skýringar á því hvað hér er átt við, hvort hún vilji hækka eingreiðsluna um örfáa þúsundkalla eða tvöfalda hana og höfum ekki fengið staðfestingu á því að þingmenn stjórnarliðsins ætli að koma með okkur í að tryggja þessa 60.000 kr. eingreiðslu. Mér finnst mikilvægt að taka fram að svona á velferðarþjóðfélag ekki að virka, við hér á Alþingi eigum ekki að vera í einhverjum jólagjafaleik ár eftir ár heldur eigum við að standa vörð um félagsleg réttindi fólks alla mánuði ársins, með mannsæmandi framfærslu alla mánuði ársins. Ef almannatryggingakerfið okkar virkaði eins og það á að virka þá værum við ekki að tala um einhverja eingreiðslu hérna. Þessi fáránlega staða þar sem stjórnmálamenn eru eins og jólasveinar í nóvember og desember er afleiðingin af því að lífeyrir hefur ekki fylgt almennri launaþróun. Hún er afleiðingin af því að óskertur örorkulífeyrir er tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu og skyldi þá engan undra að æ fleiri öryrkjar leiti til umboðsmanns skuldara, (Forseti hringir.) að fleiri og fleiri öryrkjar þurfi að reiða sig á matargjafir vegna fjárhagsvanda. (Forseti hringir.) Við verðum að bregðast við strax með eingreiðslu en stóra verkefnið er að skapa gott almannatryggingakerfi sem við getum öll verið stolt af.