Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[13:21]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á því að þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég held að allir sem fylgjast með henni geti ekki komist að annarri niðurstöðu en að hún hafi verið mjög málefnaleg en sömuleiðis upplýsandi. Hér koma hv. þingmenn með ýmis sjónarmið sem mér finnst öll vera mikilvæg. Ég vil biðja hv. þm. Ágúst Bjarna Garðarsson velvirðingar á því að í þessu stutta andsvari mínu þá náði ég ekki alveg að svara punktinum sem hann kom með um Minjastofnun. En bara svo það sé skýrt þá er það þannig að ef þessi heimild er ekki þá getur Minjastofnun í rauninni bara heimilað framkvæmdir á friðuðum húsum eða hafnað, en ekki komið með einhver skilyrði þannig að það sé hægt að fara í framkvæmdir að því gefnu að það séu uppfyllt einhver skilyrði sem menn ná fram. Ég ætla það að hugsunin á bak við sé sú að auka líkurnar á að ekki sé verið að synja heldur frekar að gefa einhver skilyrði til að hægt sé að fara í framkvæmdir. Ég tel mjög mikilvægt að sveitarfélögin komi að þessu og við þurfum að finna leið til þess að þau geti komið að þessari heildarendurskoðun. Þetta ætti nú ekki að vera flókið, ég held að allir séu sammála um markmiðin. Hv. þm. Jódís Skúladóttir fór vel yfir það og stóru myndina. En við ætlum ekki að ganga þannig fram og þetta á ekki að vera þannig að við búum til slíkt regluverk að það sé ekki hægt að framkvæma neitt, hvorki varðandi hús eða aðra hluti sem eru komnir til ára sinna. Það er ekki markmiðið. Og eins og komið hefur fram, ef við samþykkjum ekki þessi efnisatriði varðandi ártalið þá værum við að fara inn í mjög erfið mál.

Hv. þingmenn Jódís Skúladóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir fóru hér yfir nokkra hluti sem mér fannst vera mjög áhugaverðir þegar kemur að menningarminjum og það var sérstaklega vísað í skipin okkar. Eitt af því sem talað var um var fjármagn en þetta snýst líka um viðhorf. Ég held bara að við höfum sofið á verðinum og það þýðir að kostnaðurinn verður miklu meiri. Það væri synd ef við ættum engin eldri skip, sem hjálpuðu okkur að leggja grunninn að þeim lífskjörum sem við búum við í dag. Eins og hv. þingmenn komu inn á er verið að skoða þetta í ráðuneytinu ásamt öðrum ráðuneytum því að þetta skarast. Menningarminjar skipta gríðarlega miklu máli og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir ræddi skráningu á menningarminjum. Það er nú meira fyrir tilviljun að ég áttaði mig á því, af því að hún nefndi sjávarrof, að bara t.d. á Siglunesi við Siglufjörð var fyrsta þéttbýli á landinu á landnámsöld en út af sjávarrofi eru menn í kapphlaupi við að reyna að bjarga þeim menningarminjum sem eru hreinar fornminjar. Það á örugglega við um fleiri staði á landinu. Varðandi skipin, eins og hv. þm. Jódís Skúladóttir nefndi, er aðkallandi núna að við vinnum í þeim málum. Svo eru náttúrlega hlutir sem okkur finnst sjálfsagðir af því að við venjumst þeim, en herminjar eru t.d. að fara mjög hratt. Það er alveg ótrúlegt hvað var mikið af þeim á þeim tíma þegar herinn byggði upp en það er mjög lítið eftir og ef við vöndum okkur ekki þá gæti þetta horfið nokkurn veginn allt saman. Það getur gerst mjög auðveldlega af því að það gerist með tímanum, þegar fólk er orðið vant hlutunum og búið að sjá þá mjög lengi þá verða þeir ekkert merkilegir en svo allt í einu vakna menn upp við það að þetta er allt saman að fara, að við gleymdum að huga að þessu.

Menn tala auðvitað um fjármagn og ég er ekkert að segja að þetta snúist ekki um fjármuni að einhverju leyti en ég held að þetta snúi líka að viðhorfi. Hv. þingmaður vísaði hérna í götumynd. Ég var nú einhvern tímann í skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar og ég var að leggja áherslu á við ættum að byggja líka gamalt, m.a. til að viðhalda götumyndum, en á þeim tíma var nú ekki gert mikið með þau sjónarmið. En þau komu sem betur upp aftur og ég held að enginn sjái eftir því þar sem byggt hefur verið t.d. hér í miðborg Reykjavíkur í, getum við sagt, stíl við það sem fyrir er. Ég held að það sé gott dæmi um að menn hafi stigið inn og gert hluti vel.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir vísaði til aðgengismála, sem ég skil núna miklu betur af eigin raun heldur en ég gerði, þó svo að ég hafi verið fylgjandi því að við lítum til þeirra mála, og við hljótum að líta til þeirra. Í öllu þurfum við líka að horfa á hlutina með loftslagsgleraugunum. En ég hugsa að aðgengismál gætu orðið mjög erfið í mörgum gömlum húsum, maður hefur aðeins fundið fyrir því. En það breytir því ekki að ef menn eru með augun á því þá hlýtur að vera hægt að finna lausnir til að koma til móts við þau sjónarmið, sem þarf svo sannarlega að gera.

Hér vísaði hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir mikið til byggingarstíls í ólíkum sveitum sem mér fannst áhugaverð nálgun sem hefur ekki mikið verið rædd. Við hljótum að líta til allra þessara þátta sem hv. þingmenn vísuðu hér til í heildarendurskoðuninni. Ég held að þessi umræða hér sé bara mjög góð byrjun á þeirri heildarendurskoðun því að allir þingmenn sem hér kvöddu sér hljóðs komu með gott innlegg í það. Ég mun hvetja þá sem munu stýra þeirri vinnu til að skoða þessa umræðu sérstaklega. Auðvitað er líka mjög mikilvægt að hv. þingmenn haldi áfram að koma sínum sjónarmiðum áleiðis. Ég held að það sé sýnt, eins og hv. þm. Jódís Skúladóttir vísaði til, að hv. þingmenn munu fara vel yfir þetta mál og ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það er góð þverpólitísk samstaða um markmiðin. En við þurfum að finna leiðir þannig að við náum markmiðunum. Ég vísa hins vegar til þess, og hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson vísaði til þess líka, að við megum samt ekki ganga þannig fram að við búum til svo íþyngjandi regluverk að það sé í rauninni farið langt út fyrir það sem við ætluðum að gera. Ég held ég þurfi ekkert að færa sérstök rök fyrir því.

Ég vil nota tækifærið í lokin, virðulegi forseti, og þakka öllum hv. þingmönnum fyrir mjög góð innlegg og umræður hér í dag.