Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

meðferð sakamála.

428. mál
[13:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála. Breytingarnar eru settar fram í því skyni að bregðast með skjótum hætti við niðurstöðu Endurupptökudóms um að dómstóllinn hafi ekki heimild til að vísa málum sem dæmd hafa verið í Hæstarétti fyrir tilkomu Landsréttar til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti. Með frumvarpinu er lagt til að Endurupptökudómi verði veitt skýr heimild til þessa efnis.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu féllst Endurupptökudómur hinn 31. október sl. á að mál sem dæmt hafði verið í Hæstarétti 4. febrúar 2016 skyldi endurupptekið fyrir Hæstarétti. Í úrskurðinum er tekið fram að það falli undir Endurupptökudóm, sem sé sérdómstóll, að taka afstöðu til þess hvort mál sem dæmd hafi verið í Hæstarétti og fallist sé á endurupptöku á eigi með réttu að sæta endurupptöku hjá Hæstarétti sem teljist vera meginregla eða hjá Landsrétti sem teljist vera undantekningarregla.

Í úrskurði Endurupptökudóms er enn fremur vísað til þess að við túlkun á 232. gr. laga um meðferð sakamála sé m.a. til þess að líta að skv. 59. gr. stjórnarskrárinnar verði skipan dómsvaldsins ekki ákveðin nema með lögum en ákvæðið nái ekki aðeins til þess að þessum stofnunum sé komið á fót með lögum heldur einnig að þar sé mælt fyrir um málsmeðferðina. Sama leiði af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af þessu leiði eðli máls samkvæmt, sem og því að um undantekningarreglu sé að ræða, að við skýringu ákvæðisins verði orðum þess ekki léð rýmri merking en felist í bókstaflegum skilningi þess. Lagði dómurinn til grundvallar að hefðbundin orðskýring á orðunum „að nýju“ sýndist fela það í sér að einungis væri heimilt að notast við þetta heimildarákvæði við þær aðstæður að mál hefði áður sætt meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti. Þar með gæti það ekki átt við endurupptöku mála sem hefðu verið dæmd í Hæstarétti án þess að hafa áður fengið meðferð fyrir Landsrétti. Þá tiltók Endurupptökudómur jafnframt að af lögskýringargögnum yrði ekki ráðið að til hafi staðið að ákvæðið gæti átt við þegar mál hefðu ekki áður sætt meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti. Að teknu tilliti til alls þessa lagði dómurinn þá skýringu til grundvallar að ekki væri heimilt að vísa máli til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti sem ekki hefði áður fengið meðferð þar heldur yrði að beita meginreglunni um að endurupptekið mál væri tekið fyrir á ný fyrir sama dómstól og dæmt hefði í málinu.

Með dómi Hæstaréttar frá 5. október sl. komst Hæstiréttur aftur á móti að þeirri niðurstöðu í öðru máli sem Endurupptökudómur féllst á að endurtaka að Endurupptökudómi hefði borið, miðað við þær ástæður sem Endurupptökudómur lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefði skv. 232. gr. laga um meðferð sakamála til að vísa umræddu máli til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Þar sem málið hafði verið endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu yrði ekki úr því bætt nema með því að leiða endurupptökubeiðanda og vitni fyrir dóm til skýrslugjafa. Hæstarétti væri ókleift að bæta úr þessu og hefði hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti enda þjónaði meðferð þess fyrir réttinum fyrirsjáanlega engum tilgangi.

Nauðsynlegt er að bregðast við niðurstöðu Endurupptökudóms um að dómurinn hafi ekki heimild til að vísa málum sem dæmd hafa verið í Hæstarétti til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti og veita dóminum til þess skýra heimild. Verði það ekki gert er ljóst að mál sem dæmd hafa verið í Hæstarétti fyrir tilkomu Landsréttar og Endurupptökudómur telur að uppfylli skilyrði til endurupptöku, sökum þess að brotið hafi verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu, fá ekki endurtekna málsmeðferð fyrir dómi eins og endurupptökubeiðendur eiga rétt á. Því er lögð til breyting á lögum um meðferð sakamála til að gefa þeim sem fá mál sitt endurupptekið tækifæri til að fá endurtekna munnlega sönnunarfærslu í málum sínum á áfrýjunarstigi. Er hér eingöngu um að ræða mál sem dæmd voru í Hæstarétti fyrir 1. janúar 2018 en þá tók Landsréttur til starfa. Mál sem áfrýjað hafði verið til Hæstaréttar fyrir 1. janúar 2018 en höfðu ekki verið dæmd þar fyrir 1. janúar 2018 voru fengin Landsrétti til meðferðar.

Hæstv. forseti. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við þeirri stöðu sem komin er upp og ég hef hér lýst. Mikilvægt er að málið hljóti skjóta meðferð hjá Alþingi. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og til 2. umr.