153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:11]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka aftur fyrir innleggið og vil líka þakka hv. þingmanni fyrir þá vinnu sem hann tók að sér við að búa til nýja tónlistarmiðstöð og fyrir að leggja sitt af mörkum við að búa til tónlistarstefnu og svo ný lög um tónlist. Það er auðvitað ómetanlegt eins og fyrir mitt ráðuneyti að hafa getað byggt vinnu á vinnu þess hóps sem hv. þm. Jakob Frímann Magnússon leiddi á síðasta kjörtímabili sem miðaði einmitt að því að bæta alla umgjörð í kringum tónlist. Eins og við þekkjum sem erum hér er íslensk tónlist framúrskarandi. Bestu sendiherrar landsins er listafólkið okkar og við erum mjög stolt af því fólki. En það er ekki nóg að vera stolt af einhverju, við þurfum líka að ráðast í þá hluti að bæta alla umgjörðina í tengslum við tónlistariðnaðinn. Þannig að ég verð að segja að ég er mjög ánægð með þau skref sem við erum að taka, að við séum með fjármuni í nýja tónlistarmiðstöð, að við séum að klára tónlistarstefnuna og þessi nýju lög og að við séum mjög vakandi fyrir því bæði hvernig tónlistariðnaðurinn er að þróast og að tónlistarfólkið okkar geti starfað í skapandi umhverfi, að við séum að styðja við það, þ.e. ríki, sveitarfélög og atvinnulíf, og svo líka að tónlistariðnaðurinn verði þá enn meira sjálfbær. Við sjáum mörg verkefni sem dafna og blómstra þessa dagana sem við hefðum ekki þorað að láta okkur dreyma um fyrir tíu árum. Þetta er hægt með því að stjórnmálin hlusti á grasrótina, tónlistargrasrótina, og þetta er með því ánægjulegra sem ég hef komið að.