Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:24]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þetta góða mál. Það á rætur að rekja svolítið aftur í tímann, allt til stefnuyfirlýsingar þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins frá 2013 þar sem kom fram það markmið ríkisstjórnar að tónlist nyti sömu hvetjandi ívilnana og kvikmyndagerð. Með lögunum var þá sett á fót hvatakerfi til að efla tónlistariðnað hér á landi og til að laða að erlent tónlistarfólk til að hljóðrita tónlist á Íslandi.

Í gildandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er áfram lögð rík áhersla á eflingu listar og menningar og einnig að umhverfi tónlistargeirans á Íslandi verði tekið til skoðunar. Þar kemur fram sú áhersla ríkisstjórnarinnar að stuðla að uppbyggingu greinarinnar á kjörtímabilinu með því að auka opinberar fjárfestingar í skapandi greinum. Verkefnið hefur þann tilgang fyrst og fremst að laða að erlent fagfólk til að hljóðrita tónlist á Íslandi til að styðja við og styrkja innviði listgreina og skapandi greina. Eins og ráðherra kom inn á er Ísland fyrsta landið sem býður upp á endurgreiðslu vegna hljóðritunarkostnaðar og er það staðreynd sem mætti staldra við oftar og er öðrum löndum til eftirbreytni.

Frá því að lögin voru sett 2016 hefur ráðuneytið getað fylgst með hve stór hluti umsókna berst frá erlendum aðilum þar sem hljóðritun sem sótt er um endurgreiðslu fyrir er gefin út erlendis. Á tímabilinu 2017–2021 fóru u.þ.b. 30% af heildarendurgreiðslum til erlendra aðila. Frá því að lögin, nr. 124/2020, voru sett hefur verið gerð ein breyting á þeim af þáverandi viðskiptaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Sú lagabreyting fól í sér að horfið var frá því skilyrði fyrir endurgreiðslu hljóðritana að sameiginlegur spilunartími þeirra mætti ekki vera undir 30 mínútum. Í lögunum var sá tími styttur í 14 mínútur. Breytingin var rökstudd með vísan til breyttra markaðsaðstæðna og rekstrarumhverfis. Einnig kom fram í greinargerð með þeim lögum að fjöldi tónlistarmanna kysi frekar að gefa út stök lög eða stuttskífu til að vekja athygli á listsköpun sinni eða nýrri plötu sem væri innan 30 mínútna hljóðritunartíma. Þá væri meðallengd dægurlaga almennt styttri en áður.

Ef maður skoðar hvernig umsóknirnar hafa verið undanfarin ár í samræmi við fjárlögin þá hafa þær allt frá árinu 2017 verið innan fjárlagaheimilda, nema á árinu 2021 þar sem var farið ríflega 5 milljónir yfir fjárlagaheimildina. Sú hækkun á líklegast rætur að rekja til framangreindrar lagabreytingar með 14 daga tímann, enda voru mun fleiri verkefni endurgreiðsluhæf en áður. Endurgreiðslur á árinu 2022 og 2021 voru fyrir töluvert fleiri stórverkefni en tíðkaðist áður, bæði innlend og erlend. Þetta gefur til kynna að endurgreiðslukerfið sé farið að taka við sér og skili tilætluðum árangri, samhliða auðvitað markvissri kynningu ÚTÓN á endurgreiðslukerfinu undanfarin ár og því ágæta starfi sem þau sinna þar.

Við getum því, held ég, forseti, staðið hér og megum segja: Af þessu má ráða að endurgreiðslukerfi laganna hefur skilað tilætluðum árangri og nálgast þær tölur sem gert var ráð fyrir í upphafi og er það gleðilegt.

Árangurinn má einnig skoða í ljósi þess að í greinargerð þessari sem hæstv. ráðherra er hér að leggja á borðið kemur fram að fleiri lög og plötur hafi komið út frá ári til árs og á Íslandi er að finna hljóðver og fagaðila á heimsmælikvarða. Undanfarin ár hefur orðið mikill uppgangur í íslenskum tónlistariðnaði. Má þar nefna mikla fjölgun á hljóðverum sem eru notuð til upptöku á tónlist. Þetta gerir Ísland að aðlaðandi áfangastað fyrir erlenda tónlistarmenn. Það hefur m.a. sýnt sig í fjölbreyttum verkefnum sem þegar hafa verið unnin eða sem þegar hafa verið bókuð í hljóðverum víðs vegar á landinu. Endurgreiðslukerfi laganna hefur gefið starfsemi hljóðvera byr undir báða vængi og er hvetjandi fyrir áframhaldandi öfluga starfsemi og uppbyggingu þeirra.

Tónlist er ekki einungis stór hluti af menningu landsins, hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem hvert tónlistarverkefni getur skapað mörg afleidd störf. Til að hægt sé að viðhalda þessari uppbyggingu og tryggja tónlistarlífi á Íslandi áframhaldandi forsendur til vaxtar er mikilvægt að stjórnvöld veiti áfram endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Slíkt hvetur til frekari atvinnusköpunar, fjárfestingar í tónlistariðnaðinum, tækni- og getuuppbyggingar, framþróunar og hagræðingar í iðnaðinum og tengslamyndunar milli aðila, að því ónefndu að það hefur að sjálfsögðu hvetjandi áhrif á erlenda tónlistarmenn til að ferðast til landsins og hljóðrita hér á landi.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli koma hér með þetta frumvarp. Meginmarkmiðið er eins og áður sagði að stuðla að áframhaldandi uppgangi íslensks tónlistariðnaðar með því að framlengja gildistímann og styðja þannig við innviði greinarinnar sem er í samræmi við framangreindar áherslur ríkisstjórnarinnar um nauðsyn þess að tryggja frekari stuðning við íslenskt tónlistarfólk.

Auk þess að styðja framlengingu á gildistímanum þá styð ég einnig þá breytingu sem kemur fram í frumvarpi laganna um að starfsemi þjónustuaðila verði felld inn í lögin, sem hefur hingað til ekki fallið þar undir en má með allri sanngirni fella þar undir, eins og er rakið er prýðilega í greinargerð frumvarpsins.

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma fram með þetta mál. Ég styð málið og mun áfram vinna með það í hv. atvinnuveganefnd. Ég hef ekki nokkrar forsendur til að halda annað en að sú vinna verði farsæl og ef eitthvað er mun gott mál batna enn frekar, en það er nú bara nokkuð gott nú þegar.