Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[16:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Finnski utanríkisráðherrann í Helsinki fyrir fjórum vikum benti á þá augljósu staðreynd að það væri raunverulega ekki hægt að treysta ESB sem varnarbandalagi. Umrædd lagagrein tryggði engar varnir í Finnlandi, á bak við greinina stæði ekkert þegar á reyndi, eins og ég sagði áðan; engin umgjörð væri til um neinar varnir, engir hermenn og hvað þá heræfingar. Það væri erfitt að byggja varnir og öryggi á lagagreinum einum og sér, þvert á það sem mætti ætla hér á landi af málflutningi þingmanna Viðreisnar og Samfylkingar skömmu eftir innrásina. Ég hef gagnrýnt það og gerði það, innrásin var á aðfaranótt fimmtudags og á flokksþingi Samfylkingarinnar var þetta orðið höfuðmál á laugardegi, innan tveggja daga. Mér fannst þetta ekki vel gert, að fara að flækja málin með þessu, og þá sérstaklega í samhengi við það sem við höfum núna orðið vitni að, hvernig Finnar og Svíar tala raunverulega um þessi mál. Þessar þjóðir segja, okkar helstu vinaþjóðir, Norðurlandaþjóðir, að NATO sé nauðsynlegt fyrir varnir og öryggi þessara ríkja. Það sé lykilatriði. Þessi grein, 42.7, sem hefur verið vísað í í umræðu hér af hálfu Viðreisnar og Samfylkingar síðan í lok febrúar, rétt eftir að innrásin í Úkraínu hófst — mér fannst þetta ekki vel gert. Mér fannst þetta rugla fólk svolítið í ríminu varðandi þessi málefni sem snúa að vörnum og öryggi Íslands. Ég ætla síðan að fara aðeins efnislega í gegnum greinina hér á eftir en þetta er lykilatriði af minni hálfu. Við eigum ekki að fara að rugla þessu saman. Ég bendi á að 80% af því fjármagni sem er varið innan NATO til varnar- og öryggismála kemur frá ríkjum utan Evrópusambandsins. 23 af 27 ríkjum Evrópusambandsins eru í NATO. (Forseti hringir.) Það eru 9 ríki af 30 sem eru í NATO í dag sem leggja til 80% af fjármagninu.