131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Stofnun íþróttaakademíu í Reykjanesbæ.

[11:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin.

Ég vil byrja á því í síðari ræðu minni að vísa til föðurhúsanna öllum ummælum hv. þingmanna um að ég sé mótfallin námstækifærum fyrir ungt fólk á Suðurnesjum. Það kom fram í ræðu minni að um það er ekki að ræða. Ég gagnrýni hins vegar hvernig þessi ákvörðun er tekin.

Ég minni hv. þingmenn á það að um íþróttafræðasetrið á Laugarvatni hefur ríkt pólitísk sátt. Það setur er ekki rekið á Laugarvatni vegna þess að Kennaraháskólinn óski eftir því eða hafi viljað reka það þar öðrum stöðum fremur. Nei, Kennaraháskólinn hefur gjarnan viljað hafa setrið í Reykjavík en það er pólitísk sátt um að hafa það á Laugarvatni. Það sem ég er að benda á er að hv. þm. Suðurlands ógna setrinu á Laugarvatni með hinu setrinu vegna þess að umræðan um þetta hefur ekki farið fram. Hvers vegna er ekki hægt að mynda samstarf milli Kennaraháskólans um þetta og þeirra sem vilja stofna íþróttaakademíu, eða ætti ég frekar að segja sportakademíu, á Reykjanesi?

Hv. þm. Hjálmar Árnason segir að hér sé um sjálfstæða ákvörðun sjálfstæðs háskóla að ræða sem eftir því sem mátti skilja á orðum hv. þingmanns ætti ekki að gagnrýna eða væri yfir gagnrýni hafin, og ég spyr: Hvað hefur þessi ákvörðun í för með sér? Hún hefur það í för með sér að þessi sjálfstæði háskóli kemur inn í sali Alþingis, fær í gegnum fjárlög 110 nemendaígildaframlag án þess að um það hafi farið fram umræða í þessum sölum. Er eðlilegt að sjálfstæðar stofnanir úti í bæ geti á þennan hátt sent himinháar rukkanir fyrir nemendaígildum til ríkissjóðs án þess að um það hafi farið fram pólitísk og fagleg umræða? Ég er ekki á því að slíkur framgangsmáti eigi að vera. Ég hefði viljað að við hefðum staðið þannig að málum að við hefðum rætt málið á pólitískan hátt og tekið um það sameiginlega og öfluga ákvörðun að fjölga menntunartækifærum fólks á Suðurnesjum.