133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hjólreiðabrautir.

379. mál
[14:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hér inni eru ýmsir áhugamenn sem hafa tekið málefni hjólreiðamanna upp í þinginu. Þeir eru reyndar ekki mjög margir en ég tel að það sé fyllilega þörf á því að fara yfir þessi mál og svar mitt við fyrirspurninni er þetta:

Í gildandi vegalögum eru hjólreiðastígar ekki skilgreindur vegflokkur né um þá fjallað með öðrum hætti. Því er ekki um það að ræða að gera sérstaka áætlun um lagningu þeirra að svo komnu máli að óbreyttum lögum. Í drögum að nýjum vegalögum sem verið hafa til kynningar og eru á heimasíðu ráðuneytisins og eru til frekari vinnslu, eru hjólreiðastígar skilgreindir sérstaklega sem vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og haldið er við af fé ríkis eða sveitarfélaga. Í drögum að þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita fé í samgönguáætlun til almennra hjólreiðastíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við sveitarfélög.

Í vinnu við samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018 verður fjallað um hjólreiðastíga svo framarlega sem sú löggjöf verður staðfest á Alþingi. Þar verður kveðið á um að stefna skuli að því að breyta þessari framkvæmd og þá yrði heimilað að taka þátt í gerð hjóla- og göngustíga meðfram stofnbrautum í þéttbýli og meðfram umferðarmestu þjóðvegum í dreifbýli til jafns við reiðvegi. En eins og hv. þingmenn þekkja er í samgönguáætlun gert ráð fyrir fjárveitingum til reiðvegagerðar við þjóðvegi og þar er fyrst og fremst miðað við að tryggja öryggi ökumanna, bæði gangandi og ríðandi, og bægja umferð ríðandi manna frá vegunum. Ef þetta verður niðurstaðan og samþykkt verður á Alþingi að taka hjólreiðastígana inn, sem ég tel að eigi að gera, þá þarf auðvitað að tryggja fjármuni til þess inn í samgönguáætlun. Ég legg áherslu á að hjólreiðafólki sem og gangandi fólki sé tryggð eins góð aðstaða og hægt er. Fyrst og fremst er það til að auka öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda meðfram umferðarmestu þjóðvegum, bæði í þéttbýli sem utan þess. Ég tel brýnt að umferð hjólandi og gangandi vegfarenda blandist ekki um of umferð ökutækja þar sem umferðarhraði er jafnmikill og raun ber vitni mjög víða.

Við vitum að hjólreiðar hafa aukist mikið við þéttbýli og þó að ég eigi ekki von á að hjólið verði meginsamgöngutæki okkar Íslendinga í framtíðinni þá þarf engu að síður að taka tillit til þessara aðstæðna og tryggja öryggi í umferðinni, öryggi hjólreiðafólks sem annarra. Þess vegna tel ég, virðulegur forseti, að Alþingi eigi að fjalla um þetta og það þurfi að breyta lögum sem að þessu lúta og ég geri ráð fyrir því að áður en langt um líður muni það frumvarp líta dagsins ljós á hv. Alþingi.