136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[10:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þingmanns þá er rétt að fara yfir ákveðna hluti. Í fyrsta lagi þegar talað er um sambærilegar stofnanir á landsbyggðinni þá er ekki mjög einfalt að leggja þær að jöfnu en ef talað er um að framlög séu mismunandi eftir íbúafjölda þá er það alveg hárrétt. Þau eru mjög mismunandi og því skal til haga haldið að þeim módelum sem nú eru í gangi hefur ekki verið breytt frá því að sá sem hér stendur tók við heldur tók hann við þeim módelum frá þeim ráðherra sem var áður.

Ef menn vilja hafa framlögin föst á hvern íbúa — sem er alveg sjónarmið — þá erum við að tala um að færa þjónustustigið gríðarlega mikið niður á fámennustu og dreifbýlustu stöðum landsins. Það er algjörlega ljóst svo menn hafi það í huga. En heilbrigðisþjónustan snýr ekki bara að fjölda fólks. Hún snýr líka að öryggi og þannig eru hæstu framlögin á hvern einstakling t.d. á Hólmavík, af augljósum ástæðum ef menn þekkja eitthvað til landshátta á Íslandi og vita hvar hún er staðsett.

Það hafa ekki verið gefin nein fyrirmæli um flatan niðurskurð. Það sem var gert var það að þegar menn fengu bréfið á föstudegi þá var það framsent til stofnana og beðið um hugmyndir. Varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þá liggur alveg fyrir að þar hafa ýmsir þættir verið skoðaðir, með stjórnendum og starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, til að sjá hvað þar megi betur fara og til að bera stofnunina saman við aðrar stofnanir.

Það sem helst hefur verið skoðað núna er það sem kalla má skipulagsbreytingar, þar er t.d. verið að skoða hina svokölluðu kragaspítalanna sem eru á Suðurnesjum, Suðurlandi, St. Jósefsspítala og á Akranesi og (Forseti hringir.) og hvernig sé best að haga þeim verkum sem vinna þar á hverjum spítala.