137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

tvöföldun Suðurlandsvegar.

[10:50]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það átti öllum að vera ljóst í mars þegar ákveðið var hvernig standa skyldi að breikkun vegarins frá Reykjavík til Selfoss að talað var um að setja fyrsta kaflann á Hólmsár – Hveragerðiskaflanum í hefðbundið ríkisframkvæmdarútboð til að vinna tíma. Við fórum yfir í gær allan þann tíma sem þarf að vinna enn í skipulagsmálum varðandi Selfoss – Hveragerði, sem hefði sannarlega verið best að komast í fyrst vegna þess að þar er meiri umferð, en tefst vegna skipulagsmála og þá var talað um það sem mjög góðan einkaframkvæmdarvalkost.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ef nú er svo að skapast að lífeyrissjóðirnir vilja koma með meiri peninga í verklegar framkvæmdir, þar með talið vegaframkvæmdir að þá sé hægt að taka allan kaflann með því þá fagna ég því mjög og ítreka það sem ég hef áður sagt, þetta er þýðingarmesti kaflinn til að fara í hvað varðar tvöföldun út af umferðarþunga og umferðaröryggismálum.