137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[10:57]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð veit er hæstv. heilbrigðisráðherra annálaður lýðræðissinni en nú vill svo til að bæði Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem leggur til að Icesave-skuldbindingarnar eða ríkisábyrgðin fari í þjóðaratkvæði. Bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa komið fram og sagt að það mál sé of snúið fyrir þjóðina.

Mig langar til að beina þeim spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann taki undir með Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingunni um að Icesave-málið sé það stórt í sniðum að það eigi að fara í þjóðaratkvæði og hvort það falli undir skilgreiningu í þeim lögum sem ríkisstjórnin var að leggja fram fyrir ekki svo löngu síðan.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé sammála hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að þjóðin geti ekki tekið þessa ákvörðun vegna þess að málið sé of snúið. Kannski mætti bæta þeirri spurningu við hvort hann telur þá ekki um leið að ESB-málið sé of snúið fyrir þjóðina.

Ég vona að við fáum skýr svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra — hann hefur gefið sig út fyrir að vera lýðræðissinni — og að við förum ekki út í einhverja útúrsnúninga eins og við höfum heyrt hér fyrr í dag.