139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir talaði um mikla siðvitund og fór í löngu máli yfir það hverjir væru siðaðir og hverjir ekki. Ég minni á að þetta eru ekki fyrstu greiðslurnar sem hæstv. fjármálaráðherra greiðir án heimildar úr ríkissjóði. Það vill svo til að sá ráðherra á sér fortíð líka og þegar þessi aðili var landbúnaðarráðherra á árum áður beitti hann sömu brögðum og keypti upp loðdýrabú í stórum stíl án þess að fá til þess heimildir hjá þinginu.

Við þurfum heldur ekki að minnast þess að Herjólfur var styrktur af þessum sama ráðherra sem nú er fjármálaráðherra til að koma skipinu í slipp á Akureyri. Svo varð þó aldrei og hafa Vestmannaeyingar alla tíð síðan þurft að búa við það að Herjólfur var ekki jafnstór og hann var [Hlátur í þingsal.] þegar hæstv. fjármálaráðherra lét klippa af honum eina 15 metra, minnir mig.

Hvað um það, hæstv. fjármálaráðherra hefur verið hér mikið til umræðu. Það vill svo til að hann var í andsvari við mig í gær um Íbúðalánasjóð og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nefnilega farið fram á það að ríkissjóður leggi Íbúðalánasjóði til 35–42 milljarða kr. Hæstv. fjármálaráðherra gat ekki svarað því í gær, eða kærði sig ekki um það, hvort það væri til þess að það væri auðveldara að einkavæða Íbúðalánasjóð því að eiginfjárhlutfall sjóðsins fer þá upp í 8%.

Það vildi svo til í gær að jafnframt var dreift svari með spurningu minni um hvað sveitarfélögin skulduðu Íbúðalánasjóði. Það eru 40 milljarðar kr. samtals. Málið skyldi þó ekki liggja þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé að biðja um þessa innspýtingu í Íbúðalánasjóð vegna þessarar skuldar? Við vitum að félagsmálakerfið sem þáverandi félagsmálaráðherra, (Forseti hringir.) Jóhanna Sigurðardóttir, setti á stofn þegar hún var félagsmálaráðherra í fyrri ríkisstjórnum er að sliga sveitarfélögin í landinu. (Forseti hringir.) Það var bersýnilegt af þessu svari sem ég fékk í gær.