140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla eins og aðrir að þakka samstarfsmönnum mínum í fjárlaganefnd kærlega fyrir samstarfið. Mig langar einnig að geta þess að þar eru tveir ritarar virkilega færir í sínu starfi. Annar þeirra er nú að láta af störfum og ég held að hans verði afar sárt saknað en hann hefur starfað þar lengi.

Staðan í ríkisfjármálum er ekki eins og hún er lögð á borðið fyrir framan okkur. Þar er dulinn halli upp á tugi milljarða og ef hann er tekinn saman þýðir það að öll þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér að ættu að nást á þessu ári hafa ekki náðst. Frumjöfnuðurinn verður neikvæður um mörg prósentustig, markmiðum um heildarjöfnuð hefur verið seinkað. Hér er talað um að hagvöxtur hafi aukist en hvernig er hann til kominn? Úttekt á séreignarsparnaði og áhrif kjarasamninga. Hann er ekki drifinn af framleiðsluaukningu sem við þurfum svo sárlega á að halda í dag. Allt tal um það (Forseti hringir.) að verið sé að auka í velferðarkerfið er bara bull og vitleysa og við framsóknarmenn munum leggja fram tillögur í þá veruna. [Hlátur í þingsal.]