140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það var gagnrýnt í fjárlagaumræðunni að ekki hafi komið álit frá efnahags- og skattanefnd, en það kom svo reyndar í ljós að gerð höfðu verið mistök í nýjum þingsköpum. Niðurstaðan varð sú að fjárlaganefnd fjallaði lítið sem ekkert um þennan mikilvæga þátt fjárlaganna.

Við framsóknarmenn höfum lagt fram tillögur sem ganga út á það að við framleiðum okkur út úr þeim vanda sem íslensk þjóð glímir við í staðinn fyrir að skattleggja okkur út úr henni. Við höfum lagt fram ítarlegar efnahagstillögur, tillögur í atvinnumálum. Það var tekið vel í að skoða þær tillögur af öllum þingmönnum en ekkert hefur gerst. Við þurfum nauðsynlega að ná upp hagvexti til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og þessar tillögur ríkisstjórnarinnar miða því miður í þveröfuga átt.