143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sá alvarlegi atburður varð hér í dag að hæstv. forsætisráðherra reyndi að villa um fyrir alþingismönnum um meðferð fjárlagafrumvarpsins og breytingartillagna við það. Í umræðu um tillögur um lækkun á barnabótum kallaði hann þær hreinar getgátur.

Við töldum að hann væri aðeins að gera lítið úr opinberum yfirlýsingum Bjarna Benediktssonar og Vigdísar Hauksdóttur. En nú er upplýst af hálfu DV að fjölmiðillinn hafi undir höndum minnisblað frá hæstv. fjármálaráðherra, undirritað eigin hendi, til Alþingis Íslendinga þar sem fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands er lögð til lækkun á nefndum barnabótum, þ.e. að tillagan um lækkun barnabóta hafi ekki verið neinar getgátur heldur formleg samþykkt ríkisstjórnar Íslands undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og tillaga við Alþingi Íslendinga. Ég fer fram á að fá það upplýst hér hvort þetta minnisblað hafi verið lagt fram á fundi fjárlaganefndar Alþingis (Forseti hringir.) og hvort það sé rétt að minnisblaðið hafi borist Alþingi Íslendinga og fer fram á að forustumenn fjárlaganefndar (Forseti hringir.) upplýsi hér í ræðustól hvort svo sé.