143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég spurði út í þennan 300 millj. kr. nýja lið er sú að mér fannst koma fram á fundi fjárlaganefndar að það væri svolítið sérstakt ef ráðherra gæti valið að safna saman innan allra sinna stofnana og sett í einhvern pott í staðinn fyrir að sækja um fjárheimild á nýju ári, sérstaklega í ljósi þess að þetta á ekki heima í fjárauka í rauninni, þetta á heima í fjárlagafrumvarpi vilji menn búa svona um hnútana. En óttinn er um að heimildirnar falli niður, að það þurfi að sækja um þær aftur og þær verði ekki veittar.

Hið sama er að segja um það sem kemur fram varðandi hafnarsjóð sem tekið er af og flutt á málaflokkinn hælisleitendur. Það eru algjörlega óskyldir málaflokkar en þetta stendur til að gera og mér finnst afskaplega sérstakt að þetta sé heimilt án aðkomu Alþingis. Við erum búin að ráðstafa fjármunum í einhverja tiltekna liði, en síðan ákveður ráðuneyti að hreyfa það á milli, eins og það getur, til alls óskyldra liða.

Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi nýtt frumvarp um fjárreiður ríkisins. Ég hef hins vegar efasemdir um að það taki gildi á næsta ári miðað við svör fjármálaráðuneytisins um að innleiðingin geti tekið töluverðan tíma. Ég er sammála því að það er mjög mikilvægt að leggja það fram og þó að það yrði í einhverjum áföngum. Ég held að það komi að einhverju leyti til með að ná utan um þau vandkvæði sem við eigum við, t.d. er varðar fjárauka, en hreint ekki allan. Það þarf að halda áfram að rýna það vel.