143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég komst því miður ekki í kaflann um samgönguþáttinn en geri það kannski í minni seinni ræðu. Það er ansi athyglisvert sem kemur fram bæði í fjáraukanum en ekki síður það sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu þar sem er bara beinn niðurskurður til samgönguframkvæmda. Lög sem voru samþykkt um atvinnustarfsemi í landi Bakka, bæði hvað varðar samgönguþáttinn, þ.e. að gera göng undir Húsavíkurhöfðann frá höfninni og út að iðnaðarsvæðinu og svo ívilnunarsamningurinn, átti ekki að fjármagna með því að skera niður aðrar samgönguframkvæmdir eins og þessi ríkisstjórn er að gera núna. Það var alls ekki meiningin.

Eins og hér hefur komið fram er verið að lækka framkvæmdaliðinn um 500 millj. kr. en að vísu er verið að hækka þjónustuliðinn sem er þá líka ófyrirséður. Hvernig var veturinn? Hvað þurfti mikið að moka snjó, hvað þurfti mikið að strá salti og sandi, hálkuverja o.s.frv.? Þetta er oft og tíðum dálítið púsl innan Vegagerðarinnar en stundum hefur Vegagerðin líka fengið að færa milli liða og ganga á það sem var ónotað um síðustu áramót.

Eins og ég segi er líka höggvið í það hér. Til að koma þessu saman er greinilega farið í þetta. Ég harma það mjög og að minnsta kosti höguðu núverandi ríkisstjórnarflokkar sér þannig á síðasta kjörtímabili að þeir gagnrýndu alltaf þegar eitthvað var ekki boðið út á réttum tíma þó að opinberar framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar hafi verið mestu Íslandsmet sögunnar.