143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað stór umræða sem þyrfti að eiga sérstaklega á vettvangi Alþingis. Ég vil bara nefna út frá orðum hv. þingmanns að þarna er verið að taka saman þessa liði úr Nám er vinnandi vegur sem og að taka inn í þetta innleiðingu námskrár og framkvæmd nýrrar skólastefnu, sameina þetta fyrir utan liðinn um framhaldsfræðsluna. Þarna er verið að taka saman mjög ólíka liði. Eins og ég segi hef ég sterkar skoðanir á stefnumótuninni og finnst til að mynda umhugsunarefni að þarna er líka verið að taka inn fræðsluverkefni sem ætlað var að efla læsi, nokkuð sem hefur verið algjörlega þverpólitísk samstaða um, vinna sem byrjaði fyrir mína tíð í menntamálaráðuneytinu og ég hélt áfram með. Sá liður er tekinn inn í þetta líka.

Við getum tekið umræðu um menntapólitíkina í þessu. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er óþægilegt að vita í raun og veru ekki hver hún er þegar við höfum eytt umtalsverðum tíma í að ræða nákvæmlega hvernig við getum eflt starfsnám og iðnnám. Það hefur verið efnt til gríðarlegs samráðs við atvinnulífið og skólana um nákvæmlega þau mál. Það hefur verið mikil gróska, gríðarlegur fjöldi nýrra námsbrauta, allt í takt við þá vinnu sem til að mynda OECD hefur unnið með okkur þar sem verið er að greina niður ástæðurnar fyrir brottfalli og hvernig koma megi til móts við ungmenni. Liður í því er námsframboðið. Allt hefur þetta verið, getum við sagt, hluti af sama pakkanum.

Ég mundi vilja umræðu sem væri ekki hér á tólfta tímanum, að nálgast miðnætti, þar sem við gætum átt almennilega umræðu við hæstv. ráðherra um þessa stefnubreytingu. Kannski þurfum við bara að fá sérstaka umræðu um það áður en fjáraukalagafrumvarpið verður samþykkt. Ég geri athugasemd hér í þessari umræðu við vinnubrögðin þar sem meira að segja segir beinlínis í skýringum við einstakar breytingartillögur í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2013 að meginhluti útgjaldanna falli til á næsta ári. Mér er þetta óskiljanlegt.