143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ólíkt hv. þm. Árna Páli Árnasyni undrast sá þingmaður sem hér stendur ekki í neinu að meiri hluti fjárlaganefndar sé ekki hér til að verja verk sín. Einkum og sér í lagi eftir lýsingar hv. þingmanns á þeim tillögum sem fylgja í þessum getgátupakka, eins og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar eru kallaðar í dag, hlýtur maður auðvitað að spyrja hvort hér sé ekki beinlínis verið að ganga gegn eða brjóta gildandi lög. Það hefur verið talað um sullumbull og skítamix, en eru framlög á fjáraukalögum vegna væntanlegra frumvarpa og framlög á fjáraukalögum, sem eiga að vera óhjákvæmileg og ófyrirséð útgjöld á yfirstandandi ári, sem ná til næsta árs ekki augljós brot á fjárreiðulögum ríkisins?

Er það ekki einfaldlega skýringin á því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson eru bara ekkert í salnum? Þetta eru einfaldlega tillögur sem ekki samræmast þeim lágmarkskröfum sem verður að gera til meðferðar fjáraukalaga í þinginu. Er ekki nauðsynlegt að málið sé tekið inn í fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. og kallað eftir áliti annaðhvort lögfræðinganna í þinginu eða helst Ríkisendurskoðunar á því hvort þetta sé í samræmi við gildandi lög í landinu?