144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Okkur greinir á í pólitík og okkur greinir á um forgangsröðun. Um það snýst þetta mál og það kom fram hér áðan að efnahagshrun verður aldrei bætt, ég held að það séu orð að sönnu. Hér er þetta gert að lýðheilsumáli; það er þá bara þriðjungur þjóðarinnar sem nýtur betri lýðheilsu miðað við það sem hér hefur komið fram, vegna þess að þetta dugar jú ekki nema þriðjungi þjóðarinnar.

Vert er að minna á að málið hefur tekið miklum breytingum frá því sem sagt var í kosningabaráttunni og ef stjórnarsáttmálinn er skoðaður, nú er allt miðað við og sett innan ramma 80 milljarða, m.a. með því velja verðbólguviðmiðin eftir á.

Það er líka, af því að hér var rætt um að jákvætt fé myndist hjá mjög mörgum, hjá mjög mörgum sem þetta dugar ekki til og það myndast ekkert jákvætt fé í eignum þeirra. Fasteignaverð hefur hækkað á höfuðborgarsvæðinu og það hefur lagað eiginfjárstöðu margra, markaðurinn hefur leiðrétt sig sjálfur, og það er vel þar sem það er, og þeir þurfa kannski ekki á þessu að halda. Vissulega hafa einhverjir orðið fyrir forsendubresti, við drögum það ekkert í efa en þá getum við líka skilgreint hvað er forsendubrestur. Það má velta því fyrir sér hvort það er forsendubrestur lítilla byggða þegar frá þeim er tekin atvinnan. Það er líka forsendubrestur sem ekki er bættur af hálfu ríkisins með neinum hætti.

Við höfum velt því upp hér í ræðustól og í fjárlaganefnd og ekki fengið skýringar á, og það er í sjálfu sér athyglisvert, hver skiptingin á þessu er, hversu há upphæð fer til greiðslu á greiðslujöfnunarreikningum eða í vanskil eða í dráttarvexti, kröfur sem hafa glatað verðtryggingu, þetta liggur ekkert fyrir. Og það er líka áhugavert þegar það kemur í ljós hvernig leiðréttingin skiptist milli landshluta, sveitarfélaga og eftir kjördæmum, það er mjög áhugavert að sjá hvernig það verður. Það er mikilvægt þegar við horfum til jafnræðis.

Við sjáum líka að lántakendur horfa til greiðslubyrðinnar en ekki eignamyndunar, því að ný lán eru 70% verðtryggð, þannig að þetta er mjög sérstakt.

En hér horfum við upp á atgervisflótta lækna og hjúkrunarfræðinga, sveitarfélögin kalla á aukin fjarskipti, þau kalla á aukna þátttöku ríkisins (Forseti hringir.) í heilbrigðiskostnaði og síðast en ekki síst gerir Ríkisendurskoðun — mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það — athugasemdir í fjáraukalagafrumvarpinu þar sem (Forseti hringir.) rætt er um eigið fé Seðlabankans, umræðan er um að afkoman sé ofmetin núna um 13,5 milljarða. Ég óska eftir svörum við því.