144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

starfsstöðvar lögreglustjóra í Norðausturkjördæmi.

234. mál
[16:28]
Horfa

forsætis- og dómsmálaráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi var spurt um hvernig breytingum sem yrðu á starfsstöðvum lögreglustjóra í Norðausturkjördæmi miðaði í samræmi við lög frá 2014 um breytingu á lögreglulögum. Svarið er að skipaður hefur verið lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Halla Bergþóra Björnsdóttir, núverandi lögreglustjóri á Akranesi. Þá hefur verið skipaður lögreglustjóri á Austurlandi, Inger L. Jónsdóttir. Undirbúningur að stofnun hinna nýju sameinuðu lögregluembætta á Norðurlandi eystra og Austurlandi er hafinn undir þeirra stjórn og miðar vel. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á starfsstöðvum samkvæmt upplýsingum lögreglustjóranna.

Ráðuneytið hefur nú kynnt drög að reglugerð um umdæmi og starfsstöðvar sýslumanna þar sem staðfest er að þjónusta verði áfram veitt á sömu starfsstöðvum og áður. Verður kappkostað að klára setningu þessarar reglugerðar svo óvissa eyðist um umdæmismörk og staðsetningu lögreglustöðva.

Í öðru lagi var spurt hvort ráðherra teldi að þjónusta lögreglustjóraembættanna yrði svipuð og nú eftir breytingarnar. Svarið við því er já, hún verður það og jafnvel betri. Hin faglegu rök sem liggja að baki breytingunum eru einkum þau að gera lögregluna í landinu betur í stakk búna til að sinna grunnþjónustu löggæslu, að mæta kröfum um aðhald í ríkisfjármálum án þess að gengið verði of nærri kjarnastarfsemi lögreglunnar. Skipulagsbreytingarnar skapa aukinn sveigjanleika í starfsemi lögregluliðsins og öll rekstrarumgjörð lögreglunnar verður sterkari með stærri rekstrareiningum. Það er eitt meginmarkmið laganna að þjónusta hinna nýju embætta við borgarana verði eins góð og kostur er og a.m.k. jafn góð og hún er í dag.

Í þriðja lagi var spurt hvort ráðherra teldi að áætlaðar fjárveitingar til lögreglustjóraembættanna í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 nægðu til að tryggja sambærilega þjónustu og nú er veitt. Já, ég hef fulla trú á því en vil þó sérstaklega geta þess að mér er kunnugt um að tímabært er að endurskoða sértekjuáætlun lögregluembættisins á Austurlandi sem byggir að hluta á sértekjuáætlun sýslumannsins á Seyðisfirði sem var síðast endurskoðuð þegar það embætti hafði umtalsverðar tekjur vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar.

Í fjórða lagi var spurt hvort ráðherra teldi að sá tími sem veittur var til að undirbúa og skipuleggja ný lögreglustjóraembætti og starfsemi þeirra hefði verið nægur. Það er ljóst að sá tími sem ætlaður er til undirbúnings hinna nýju embætta er knappur en það er hins vegar mat ráðuneytisins að hann sé nægjanlegur. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að ekki er gott að óvissuástand sem óhjákvæmilega fylgi slíkum breytingum dragist á langinn. Undirbúningur að stofnun nýrra embætta hófst þegar við samþykkt laga nr. 51/2014. Búið er að ráða í nær öll embætti lögreglustjóra og hafa þeir þegar hafið störf ásamt verkefnisstjórnum embættanna við að innleiða nýtt skipulag. Verkefnisstjórn ráðherra hefur yfirumsjón með sameiningunni og vinnur hún ásamt verkefnisstjóra að samræmingu og árangursstjórnun við sameiningu lögreglustjóra og sýslumannsembætta á landsvísu, samanber bráðabirgðaákvæði I við lög nr. 50/2014.