146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

samgöngumál í Reykjavík.

[15:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Enn og aftur vil ég ítreka mikilvægi þess að menn skoði reynsluna af því hvernig mislæg gatnamót virka ef þau eru borin saman við ljósastýrð gatnamót. Það þarf engum blöðum um það að fletta hversu mikilvægt það er fyrir umferðarflæði og umferðaröryggi að hafa mislæg gatnamót.

Við getum líka alveg horft á þær leiðir sem liggja hér t.d. bara suður í Hafnarfjörð. Af hverju erum við ekki með ljós á öllum þessum stöðum þar sem eru mislæg gatnamót og er búið að koma fyrir í nágrannasveitarfélögunum? Maður getur rétt ímyndað sér hvernig umferðin gengi ef það væri. Umferðarflæðið stöðvar allt við þessi ljósastýrðu gatnamót. Við það skapast mikil slysahætta. Þessi gatnamót með tilliti til umferðaróhappa eru með þeim hættulegustu sem eru í landinu. Það þarf ekkert að velta því fyrir sér. Þarna hafa ekki orðið mörg alvarleg slys en mjög mörg umferðaróhöpp sem eru samfélagi okkar mjög dýr. (LE: Hefur ráðherrann verið í samskiptum við …?) Ég ítreka síðan, af því að það er spurt um samskipti mín við Reykjavíkurborg, að við urðum að fresta að gefnu tilefni fundi sem fyrirhugaður var með(Forseti hringir.) borgarstjóra og hans fólki fyrir stuttu en sá fundur er á dagskrá næstu daga.