146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:53]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka málshefjanda fyrir umræðuna um eigandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Hún er mikilvæg. Mín ræða snýr að vogunarsjóðunum, vegna þess að til stendur að selja stóran hlut ríkisins í bönkunum, og hún snýr eingöngu að því að brýna hæstv. ráðherra.

Nýverið mátti lesa af því fregnir að vogunarsjóðir og lögfræðistofur sem sérhæfa sig í ráðgjöf í skattaskjólum hafi verið metnar hæfar til að fara með eignarhlut í Klakka, móðurfélagi Lýsingar. Fyrir mér er það með öllu óskiljanlegt. Eitt þeirra skilyrða sem við setjum í lög um fjármálafyrirtæki er mat á því hvort sá sem hyggst eignast hlut í fjármálafyrirtækjum sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fyrirtækisins. Undir það fellur líka krafa um að upplýsingar um eignarhald liggi fyrir, að metið sé orðspor eigandans og að skilyrði um fjárhagslegt heilbrigði sé uppfyllt.

Maður spyr sig hvort hið meinta heilbrigði þeirra vogunarsjóða sem hafa verið metnir hæfir til að eiga fjármálafyrirtæki á Íslandi snúist um yfirburðarstöðu þeirra gagnvart íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Þeir hafa svo sannarlega nýtt sér þá stöðu hingað til. En þetta heilbrigði þarf að ná til markaðarins alls. Mér sýnist að tvö meginmarkmið í núgildandi eigandastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum gætu verið í hættu. Við ætlum okkur að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags og byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði.

Að mínu mati er nýlegt mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi erlendra vogunarsjóða til að eiga hlut í íslenskum fjármálafyrirtækjum tæplega byggt á markmiðum laga um fjármálafyrirtæki, um að þau séu rekin á heilbrigðan og eðlilegan hátt, m.a. með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Mér sýnist markmið í eigandastefnu ríkisins einnig í hættu. Í besta falli leikur vafi á um það. Eftir allt sem á undan er gengið hljótum við að láta íslenskan almenning njóta vafans. (Forseti hringir.) Nú þegar drög að nýrri eigandastefnu liggja fyrir, og þar er lýst vilja til að færa bankann í hendur einkaaðila, er eins gott að gegnsæi og trausti sé fylgt í öllum kringumstæðum og alltaf.