146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Já, það er mjög mikilvægt að standa vörð um að auka fjármagn til dreifnáms og fjarnáms, bæði á framhalds- og háskólastigi. Það hefur gefist einstaklega vel sem byggðaaðgerð því að þá geta börn verið lengur heima hjá sér en til 15–16 ára aldurs þar sem hefðbundinn framhaldsskóli er ekki til staðar. Jafnframt hefur komið fram að því lengur sem einstaklingur býr heima þeim mun meiri líkur eru á því að hann setjist aftur að í heimabyggð sinni þegar hann hefur lokið námi.

Þetta hefur gefist vel og var m.a. bent á það í skýrslu Vestfjarðanefndarinnar sem skilaði af sér á síðasta kjörtímabili að þar sem þetta hefði gefist svo vel væri lagt til í tillögum nefndarinnar að stofnuð yrði dreifnámsdeild á Reykhólum. Nú liggur inni fyrirspurn til hæstv. ráðherra um viðhorf hans til þess.

En ég fagna þeirri jákvæðni sem var að heyra hjá hæstv. ráðherra varðandi dreif- og fjarnám og vona svo sannarlega að við aukum í þann málaflokk á næstu árum.