146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

starfsumhverfi bókaútgáfu.

139. mál
[18:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri til að fá að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu íslenskrar bókaútgáfu. Okkur þingmönnum hefur verið bent á það að verulegur samdráttur hefur orðið í veltu íslenskrar bókaútgáfu. Ef við miðum við árið 2008, en mælingar Hagstofunnar á veltu íslenskrar bókaútgáfu ná aftur til ársins 2008, hrunársins, og skoðum stöðuna miðað við fyrstu sex mánuði ársins 2016, þá hefur orðið 48% samdráttur á veltu íslenskrar bókaútgáfu á þessum tíma.

Ástæður þess kunna að vera margar, m.a. þær að hér hefur verið kreppa en að sjálfsögðu á bókin líka í mikilli samkeppni við annars konar afþreyingu, hvort sem litið er til tölvuleikja eða hvers konar efnis sem hægt er að horfa á. En það breytir því ekki að við í þessum sal erum alltaf að leggja áherslu á lestur, aukinn lestur, hvort sem er barna, ungmenna eða fullorðinna.

Því fannst mörgum það skjóta skökku við, þar á meðal mér, þegar síðasta ríkisstjórn hækkaði virðisaukaskatt á bókum úr 7% í 11%. Bókaútgefendur mótmæltu harðlega þeirri aðgerð og hafa skorað á þingmenn að beita sér fyrir því að virðisaukaskattur verði afnuminn á bækur þannig að þær fái undanþágu frá virðisaukaskatti.

Ef við skoðum stöðuna erlendis er til að mynda meðaltal virðisaukaskatts á bækur 6,9% í Evrópu, 5,8% í heiminum. Við erum á topp fimm þegar litið er til Evrópu í skattlagningu á bækur meðan til að mynda lönd á borð við Noreg, Írland og Bretland skattleggja ekki bækur. Það er alls 31 land í heiminum sem ekki leggur skatt á bækur.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þetta verði endurskoðað í ljósi þessarar tölfræði og hvað annað hann sjái gerlegt til að styrkja stöðu bókaútgáfunnar. Nú hefur margt gott verið gert af hálfu stjórnvalda. Ég nefni til að mynda bókamessu í Frankfurt sem mikil og góð þverpólitísk samstaða var um þar sem Ísland var í hlutverki heiðursgests árið 2011 og af því má sjá markverðan árangur þegar kemur að fjölda þýðinga á íslenskum verkum um heim allan. Árið 2009 var listamannalaunum fjölgað og að sjálfsögðu skipta þau gríðarlega miklu máli fyrir rithöfunda, svo dæmi sé tekið. Stofnaður hefur verið starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna sem skiptir líka máli en mætti vissulega efla verulega. Það er því ýmsar leiðir hægt að fara til þess að styðja við bókaútgáfu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um sýn hans á þau málefni.