146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:50]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Á ferðalagi okkar hv. þingmanna um Norðvesturkjördæmi í nýliðinni kjördæmaviku fengum við hv. þingmenn upplýsingar um að fé sem hefði verið áætlað til ákveðinna vegaframkvæmda í kjördæminu væri ekki lengur til staðar. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort sú samgönguáætlun sem kom frá hæstv. þáverandi innanríkisráðherra sé í gildi varðandi úthlutun fjármagns frá ráðherra núna og hvort enn þá sé eyrnamerkt fjármagn í t.d. Vestfjarðaveg nr. 60, þá vegaframkvæmd, eins og hefur verið undanfarin ár eða hvort búið sé að færa fjármagnið eitthvert annað. Það er mjög mikilvægt að við hv. þingmenn fáum upplýsingar um hvaða framkvæmdir eigi að fara í á næstunni og mikilvægt að það plagg liggi fyrir Alþingi hið fyrsta.