146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra ollu mér miklum vonbrigðum. Gott og vel. Ef hæstv. ráðherra er alveg punkteraður og kominn á felguna og enginn kraftur í honum lengur til þess að reyna að berjast fyrir auknum fjármunum í þennan málaflokk þá stendur eftir spurningin um það hvernig á að fara með málið. Þar fellur ráðherra algjörlega á prófinu.

Það er ekkert svar að segja að eingöngu verði veitt fé til verkefna sem séu inni á samgönguáætlun. Þakka skyldi það nú. Okkur datt varla í hug að ráðherra færi að taka þessa naumu fjármuni og taka einhver alveg ný verkefni inn. Málið snýst um það hvernig á að velja á milli t.d. stærstu nýframkvæmda verkefnanna sem Alþingi hefur ákvarðað. Tökum dæmi. Í Dettifossveg áttu að fara 800 millj. kr., stórframkvæmd sem mun taka yfir lengri tíma. Í mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg og Keflavíkurveg áttu að fara 1.000 millj. kr., lítið eitt hærri fjárhæð. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að réttlæta það ef það er rétt sem fréttist að önnur framkvæmdin sé strikuð út en hin fái að halda áfram á fullri ferð? Á hvaða forsendum er það gert? Með hvaða stjórnvaldsheimildum er það gert? Skýrt stendur bæði í lögum um samgönguáætlun og vegaáætlun að það skuli byggja á friðaðri áætlun sem sundurliði einstaka framkvæmdir. Það stendur bæði í vegalögum og lögum um samgönguáætlun.

Að mínu mati eru einu möguleikar ráðherrans ef hann ætlar ekki að bera nýja röðun undir Alþingi að færa slíkar stórar fjárhæðir niður hlutfallslega jafnt, þá raskar hann ekki framkvæmdaröðinni, raskar ekki því sem Alþingi hafði ákveðið. Það þýðir þá að verkefnin verða boðin út seinna á árinu eða að minni áfangi vinnst á þessu ári. En hæstv. ráðherra hefur engar heimildir til þess að henda út einni mjög stórri nýframkvæmd sem hann hefur ekki áhuga á en taka aðra og láta hana hafa framgang að fullu.

Alþingi hefur ekki framselt til framkvæmdarvaldsins neitt slíkt vald. Það er alveg á hreinu. (Forseti hringir.) Þess vegna verður ráðherra að gera annaðhvort, koma með nýja (Forseti hringir.) tillögu hingað inn eða sætta sig við það að hafa þetta hlutlaust með því að færa fjárhæðirnar hlutfallslega jafnt niður þannig (Forseti hringir.) að þær komist inn fyrir það sem fjárlögin rúma.