149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:09]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það er bara þannig að starfsgetumat hefur slæmt orð á sér. Það er mjög skiljanlegt. Það hefur verið reynt í mörgum löndum þar sem það hefur gengið ótrúlega illa og fólk er hrætt við það. Þannig að ég átta mig ekki á því hvers vegna við getum ekki bara tekið skrefið til móts við öryrkja, sem eru greinilega mjög skelkaðir þegar kemur að starfsgetumatinu, og í átt að því að afnema skerðingarnar. Ég sé að það á ekki að afnema þær allar í einu. Mér finnst það ætti að gera það, en alla vega ættum við að draga úr skerðingunum og fara svo í þá vinnu að skoða starfsgetumatið. Ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra að það er allt í lagi að skoða það að fara í starfsgetumatið. En ég tel bara að fyrst ættum við að koma til móts við öryrkja með þessum hætti. Þá verður samvinnan mögulega betri í framtíðinni hvað kerfisbreytingarnar varðar.

Húsnæðismálin. Já, að sjálfsögðu vantar að auka hér framboð. Það vantar miklu meira af húsnæði. Eitt af brýnustu verkefnunum okkar er að setja meira fjármagn í það að byggja húsnæði, sérstaklega með fókus á félagslegt húsnæði og að hjálpa fólki. Mér finnst skorta ofboðslega mikið á að við aðstoðum fólk á leigumarkaðnum, af því að það er fjöldi fólks á leigumarkaði. En alltaf er talað um að aðstoða fólk við að kaupa af því að það á að vera einhver pressa á að allir kaupi sér húsnæði. En það vilja ekkert endilega allir kaupa húsnæði. Ef við værum með eðlilegan leigumarkað myndu miklu fleiri ákveða að vera á leigumarkaðnum frekar en að kaupa sér húsnæði. Það er aldrei skoðað.

Fólk á leigumarkaðnum er viðkvæmur hópur sem nær ekki endum saman. Ég talaði um heildræna stjórnsýslu. Það er svo mikilvægt að við skoðum það þegar við höldum fólki í fátækt, við gerum það t.d. með þessum skerðingum. Það er hópur fólks sem við höldum í fátækt (Forseti hringir.) og það eykur heilbrigðisvandann og kostnaðinn annars staðar í kerfinu. Þess vegna er svo mikilvægt að við skoðum þessi mál heildrænt.