149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjárlög. Það verður að segjast eins og er að enn eina ferðina bera þeir sem síst skyldi, veikasta fólkið, öryrkjar og eldri borgarar, þeir sem byggt hafa upp þjóðfélagið okkar, lítið úr býtum.

Ég vil byrja á að tala um það undarlega fyrirbrigði að það á að lækka framlög til öryrkja um 1,1 milljarð, eða færa það til, eins og sagt er. Förum aftur til 5. nóvember þegar hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sagði orðrétt:

„Í gangi er vinna við að endurskoða almannatryggingakerfið þegar kemur að örorkulífeyrisþegum. Þar undir eru m.a. umræður um hvernig draga skuli úr skerðingum og með hvaða hætti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem nú er í vinnslu þingsins í fjárlaganefnd og ég held að sé ráðgert að ræða við 2. umr. í næstu viku, er tillaga um að 4 nýir milljarðar skuli nýttir til að bæta stöðu þessa hóps. Þeir verða m.a. notaðir til að draga úr skerðingum.

Niðurstaða þingsins varðandi fjárlög hlýtur að skýrast síðar í þessum mánuði eða næsta mánuði og fyrir 1. janúar mun félagsmálaráðherra setja reglugerð sem miðar að því að ákveða hvernig þessum fjármunum skuli varið. Í þeirri vinnu verður horft til endurskoðunarvinnu á almannatryggingakerfinu sem stendur yfir, og samtals við Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp.“

Þarna er talað um að setja 4 milljarða í þetta, ekki 2,9. Það er skýrt. Þess vegna er mér óskiljanlegt að þetta skuli vera svona. Það sem er merkilegast í þessu samhengi er að eftir því sem ég best veit eru þessir 4 milljarðar ekki nema einn þriðji af því sem til þarf til að koma út krónu á móti krónu skerðingunni.

Í framhaldi af því má líka benda á að samkvæmt hæstv. fjármálaráðherra verða á næsta ári líka settir 4 milljarðar inn í kerfið. Ég get ekki séð það og er búinn að reyna að sjá hvernig í ósköpunum þeir ætla að fullfjármagna krónu á móti krónu skerðinguna út. Ég heyrði líka hjá fjármálaráðherra að það yrði gert í áföngum. Þá fær maður hroll. Um leið og það orð er nefnt vitum við öryrkjar og eldri borgarar að við fáum afganga, ef einhverjir verða. Það er skýringin á „í áföngum“.

Ég vil líka vitna í ræðu hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur, sem hún flutti ekki sem forsætisráðherra heldur sem óbreyttur þingmaður við þingsetningu í september 2017. Ég vil eiginlega taka undir allt sem hún segir þar. En mér er óskiljanlegt af hverju sú áhersla nær ekki í gegn í þessum fjárlögum.

„Kæru landsmenn. Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið.“

Segir hún orðrétt. Og heldur áfram:

„Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið — eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.

Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.

Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217.000 kr.“

Í dag eru þetta 270.000 kr. á mánuði.

Örorkulífeyrisþegar eru bara með 238.594 kr. Skattur af því er 34.442 kr. Þetta er fátæktarskattur sem tekinn er af fátækasta fólkinu á Íslandi. Um 70% öryrkja fá þar af leiðandi útborgaðar 204.352 kr. á mánuði. Fyrir þá upphæð þurfa þeir að standa straum af kostnaði við heimili, mat, lyf og læknisþjónustu.

Það er með ólíkindum að við skulum enn í dag sjá þessa upphæð. Ef við setjum hana í samhengi t.d. við hækkun á launum þingmanna og ráðherra er það smánarleg tala.

Höldum áfram í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hún var ekki í ríkisstjórn, 2017.

„Lægstu laun á Íslandi standa enn í 280.000 kr. Þau duga ekki til framfærslu. Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20.000 kr. því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. „Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.“

Þetta sagði hún orðrétt.

Öryrkjar — um næstu áramót, í boði þessarar ríkisstjórnar — fá bara 9.000 kr. hækkun, og það fyrir skatt. Þeir mega bíða eftir réttlætinu núna.

Áfram ætla ég að vitna orðrétt í ræðu hæstv. forsætisráðherra.

„Kæru landsmenn. Ég hef áhyggjur af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vanti upp á þennan sameiginlega skilning á því hvað felst í samfélagi. Ég hef áhyggjur af því að of margir séu beðnir um að bíða eftir réttlæti. Og af því að spurt er hvað valdi því að fólk geti ekki komið sér ekki saman um einfalda hluti eins og forgangsröðun er rétt að svara þeirri spurningu fyrir mitt leyti: Hér á Íslandi þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt. Um það hefur ekki verið eining á Alþingi þó að sumir stjórnmálamenn tali eins og hér séu allir sammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins. En við höfum ekki verið sammála um að hlutverk skattkerfis sé að tryggja jöfnuð.“

Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra þegar hún var ekki forsætisráðherra.

Herra forseti. Í umræðu við mig í óundirbúnum fyrirspurnatíma sagði hún orðrétt:

„Herra forseti. Það er auðvitað ekki boðlegt að tala hér um að ríkisstjórnin neiti að tala um fátækt, hlusti ekki á umræðu um fátækt, beinlínis þaggi niður umræðu um fátækt. Þetta er ekki boðlegur málflutningur, herra forseti.“

Hvað var ég þá að ræða? Jú, ég tók fram að engin umræða var á Evrópudegi fátæktar á Alþingi. Í framhaldi af þeirri ræðu sem hún flutti í september 2017 segir orðrétt:

„Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að horfast í augu við og bregðast við því að ríkustu 10% eiga þrjá fjórðu alls auðs í landinu. Launajöfnuðurinn sem hæstv. forsætisráðherra nefndi hér áðan er nefnilega aðeins annar hluti myndarinnar um hið jafna samfélag. Eignaskiptingin segir talsvert aðra sögu.

Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær til að mynda sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja gjarnan vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.“

Fjármagnstekjuskattur er í dag 22%, um 35 milljarðar. Á sama tíma eru fátækir einstaklingar skattaðir um 37%. Ef við tvöfölduðum fjármagnstekjuskattinn og settum í 42% fengi ríkissjóður 35 milljarða að lágmarki. Með þeim væri hægt að hætta að skatta fátækt undir 300.000 kr. Allar tekjur undir því yrðu skatta- og skerðingarlausar.

En nei. Og hitt er enn furðulegra, þeir lægstu í þjóðfélaginu, veika og gamla fólkið, sem borgar 37% skatt, borgar mest af tekjum sínum í útsvar. En fjármagnseigendur borga ekki útsvar, þeir fá bara að nota þjónustu sveitarfélaga í boði þeirra sem eru á lægstu launum og bótum. Það fólk borgar útsvarið fyrir fjármagnseigendur.

Höldum áfram í þessari merkilegu ræðu hæstv. forsætisráðherra sem þá var ekki forsætisráðherra:

„Hið sama má segja um þær pólitísku ákvarðanir sem hafa verið teknar um bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur, sem nýtast æ færra fólki. Á bak við það eru líka pólitískar ákvarðanir sem hafa ekki miðað að því að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti. Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu [...]

Hér þarf stjórnvöld sem vilja byggja upp félagslega rekið heilbrigðiskerfi þar sem Landspítalinn stendur undir hlutverki sínu, heilsugæslan fær fjármagn til að vera fyrsti viðkomustaður, setja fjármuni sem um munar í að bæta stöðu geðheilbrigðismála, sem eru verulegt vandamál í okkar góða samfélagi, leggja aukna áherslu á forvarnir til að efla lýðheilsu og heilbrigði — það þarf stjórnvöld sem ekki hafa þá hugsjón í heilbrigðismálum að útvista verkefnum til einkaaðila sem í framhaldinu greiða sjálfum sér arðgreiðslur af almannafé. Það er pólitískt val og pólitísk ákvörðun.

Síðast en ekki síst þarf hér stjórnvöld sem standa með brotaþolum kynferðisbrota, ekki síst börnum. Um það hefur pólitísk umræða sumarsins snúist og hún er mikilvæg fyrir samfélagið allt. Það verkefni þarf að nálgast af alvöru, með fræðslu, breyttri framkvæmd og endurbótum á löggjöf. Um það verðum við að ná saman í þessum sal, þvert á alla flokka. [...]

Það hlutverk snýst um að enginn sé beðinn um að bíða eftir réttlætinu, að stofnanir samfélagsins séu réttlátar, að stjórnmálamenn tryggi að kerfið þjóni fólkinu en ekki öfugt. Okkar aðalhlutverk er að vernda það raunverulega ríkidæmi sem fólkið í þessu landi á, þær eignir sem mestu máli skipta, sumar áþreifanlegar, aðrar óáþreifanlegar. Gleymum því ekki á þinginu fram undan sem ég vona að verði gjöfult og gott fyrir okkur öll.“

Það hefði verið frábært í fjárlögunum í ár að setja þetta bara inn. Koma geðheilbrigðismálunum í lag og heilbrigðismálunum, útrýma biðlistum. Nei. Það er ekki inni í þessum fjárlögum.

Annað furðulegt í meðferð fjárlaga er umsögn frá Öryrkjabandalagi Íslands. Þar kemur nokkuð stórfurðulegt fram og segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Öryrkjabandalag Íslands sendir hér með umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019 þrátt fyrir að fá aldrei umsagnarbeiðni þar um, sem vekur talsverða furðu okkar.“

— Öryrkjabandalag Íslands fær aldrei umsagnarbeiðni um fjárlög. Þeim koma þau greinilega ekkert við, Öryrkjabandalagi Íslands.

Áfram segir orðrétt:

„Fjárlögin valda enn vonbrigðum. Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir, og þrátt fyrir að stjórnvöld tali fjálglega um kaupmáttaraukningu öryrkja og að verulegu fjármagni hafi verið bætt við málaflokka fatlaðs fólks og öryrkja þá vantar enn stórlega mikið upp á til að fólk geti lifað með reisn í íslensku samfélagi. Afar brýnt er að litið verði sérstaklega til mannréttinda þessa hóps. Íslenska ríkinu ber að tryggja samfélag án mismununar, samfélag þar sem fatlað og langveikt fólk á rétt til lífs til jafns við aðra. Til þess að svo megi verða þarf að gera ráð fyrir verulegri aukningu fjármagns inn í alla málaflokka er varða fatlað fólk.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, SRFF, sem var fullgiltur haustið 2016, er leiðarljós í allri vinnu Öryrkjabandalagsins. Lagt er til að fjármagn fari sérstaklega til að innleiða sáttmálann í íslenskan rétt. Fjármagn verði tryggt til fjölgunar NPA-samningum.

Einnig er lagt til að lífeyrir almannatrygginga verði hækkaður verulega og að unnið skuli að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.“

Heilbrigðisþjónustu þarf að stórbæta. Aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslustöðvum um land allt er skammarlega lítið. Sálfræðiþjónusta er dýr fyrir flesta og ekki einu sinni í boði. Það þarf að bæta geðheilbrigðisþjónustu stórlega, líka fyrir aldraða og námsmenn.

Tannlækniskostnaður? Framlög vegna tannlækniskostnaðar voru nýlega hækkuð um 500 millj. kr. og verður hann á næsta ári ekki nema 50% af því sem hann á að vera. Þar hefur verið svelti árum saman.

Síðan þarf að setja þak á greiðslur í heilbrigðisþjónustu því að fólk sem er á lægstu launum og bótum og er skattað til fátæktar hefur ekki efni á henni.

Svo er það sjúkraþjálfun. Hún var stóraukin. Sjúkraþjálfunin skilar stórkostlegum árangri, svo stórkostlegum að ef við skoðum nýgengi öryrkja kemur í ljós, ef við tökum stoðkerfisvandann, að árið 2011 voru 400 manns í þeim hópi en 2018 eru þeir orðnir 273. Það þýðir á mannamáli að innspýtingin í sjúkraþjálfunina hefur skilað sér margfalt.

Annað sem við þurfum líka að taka á, sem er eiginlega eitt af því stórfurðulega sem haldið hefur verið fram ítrekað í þingsal, er hin gífurlega fjölgun öryrkja. Sérstaklega ungra öryrkja. En ef við rýnum í tölurnar, hvernig aldursskiptingin er í málefnum öryrkja kemur í ljós að 67% allra öryrkja eru 50–67 ára. Því að eins og allir vita verður maður heilbrigður í boði ríkisins þegar maður verður 67 ára og hættir að vera öryrki. Allir standa upp úr hjólastólunum og labba af stað — eða hvað?

Ræðum hitt, hina rosalegu fjölgun ungra öryrkja. Hún hlýtur að vera hrikalegt vandamál. Þegar við rýnum í tölurnar — hvenær verða flestir fyrir geðrænum áföllum? Jú, á aldrinum 20–26 ára, stærsti hlutinn á bilinu 20–29 ára. Ef við tökum bara aldurshópinn 20–24 ára eru það bara 2,8%. Ef við tökum aldurshópinn 25–29 ára eru það 3,5%. Við erum að tala þarna um 6,3% af heildarfjölda öryrkja.

Það er enginn vandi í þessu samhengi, ef við ætlum að tala um prósentur. Og ef við tölum um stórlega fjölgun öryrkja, 10%, hvað erum við þá að tala um stóran hóp? Í þessum aldurshópi? Eftir því sem ég fæ best séð eru það bara örfáir einstaklingar af heildinni. Þar af leiðandi er þetta ekki stórvandamál nema við gerum það að slíku. Vandamálið liggur aftur á móti hjá þeim sem ráða. Hjá ríkinu. Ríkið framleiðir öryrkja. Ríkið er með þeirri kaldhæðni að gefa þessu fólki ekki tækifæri á geðheilbrigðisþjónustu — að ráðast á félagasamtök eins og geðteymið Hugarafl, að hefta aðgang að sálfræðingum — að búa til öryrkja.

Hvað gerir ríkið eftir að það hefur metið einstakling með geðræn vandamál sem öryrkja? Hvernig fylgir það því eftir? Gerir það eitthvað? Ekki neitt. Þeir mega bara fara heim og gleymast. Eru þeir kallaðir í viðtal? Nei. Er eitthvað pælt í þeim? Nei.

Svo skilur ríkið ekkert í þeim að gera ekkert.

Á Íslandi setjum við líka 24% skatt á hjálpartæki eins og þetta hérna, hækjur, og önnur tæki. Af hverju?

Síðan er annað í þessu, hinn ótrúlega þröngsýni skilningur Sjúkratrygginga Íslands á ýmsum hlutum. Þar er stundum verið að neita fólki um hluti sem það getur hreinlega þurft að hafa til að bjarga sér út úr húsi eða koma sér út. Skilaboðin eru bara: Nei, þú ert öryrki, þú skalt bara liggja heima.

Það er alveg óskiljanlegt að það skuli vera 24% skattur á hjálpartækjum.

Förum aðeins út í bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og örorkulífeyri. Nú á að hækka um 3,6%. En hver var upphaflega talan? Jú, 3,6% og 0,5% vegna kaupmáttaraukningar. Spáið í það. Og hvað gerði ríkisstjórnin? Hún skar niður þessa 0,5% kaupmáttaraukningu. Það gæti auðvitað verið stórhættulegt að öryrkjar fengju 0,5% ofan á sem kaupmáttaraukningu. Það er um tvöþúsundkall. — Nei, innan við það, þetta er þúsundkall. Auðvitað gætu þeir farið að gera eitthvað hrikalegt af sér.

Í því samhengi var bent á: Hver hefur kaupmáttaraukningin verið hjá öðrum? 6%. Hví í ósköpunum fá öryrkjar ekki 6%? Það er vegna þess að þeir fylgja aldrei launaskriði eins og þeir eiga að gera. Þar er farið eftir neysluvísitölu. Öryrkjar falla undir neysluvörur, ekki laun eins og allir aðrir.

Virðulegi forseti. Ef ríkisstjórnin hefði virkilega ætlað að sýna einhverja viðleitni hefði hún ekki tekið til baka þessa 0,5% hækkun. Ekki er farið í 3,6% heldur í 4,1%. En það þarf að finna breiðu bökin og það þarf að skera niður. Þá eru auðvitað öryrkjar og eldri borgarar þar undir. Við vitum t.d. að atvinnuleysisbætur eru 270.000 kr. í dag, og það er gott, en þær ættu að vera 300.000 skattlaust. Það ættu líka örorkubætur og annað að vera. En atvinnuleysisbæturnar hafa hækkað stórlega umfram örorkubætur, þótt yfirleitt hafi örorkubæturnar verið á svipuðu róli eða aðeins yfir. En öryrkjar þurfa ekkert á því að halda. Þeir hafa það svo gott.

Við skulum tala um hækkanir á lágmarkslaunum, heildarlaunum og um heildartekjur öryrkja. Við skulum bara tala um tekjuhliðina. Þar hafa öryrkjar hækkað langminnst; það er auðvitað hægt að sýna aðrar tölur með því að tala um prósentur, en prósentur á litlar og lágar bætur skila sér ekki á sama hátt og prósentur á há laun. Við verðum að átta okkur á því að frá 2009–2017 hefur óskertur örorkulífeyrir hækkað um 74.000 kr., lágmarkslaun um 123.000 kr., en heildarlaun fullvinnandi fólks um 242.000. Við verðum líka að setja það í það samhengi við það hversu svakalega laun fárra útvalinna í þessu samfélagi hafa hækkað, langt umfram eldri borgara og öryrkja.

Við höfum talað mikið um starfsgetumatið og ég vil aðeins fara í það þegar öryrkjar voru skildir eftir að á sínum tíma, þegar eldri borgarar fengu leiðréttingu. Það eru að verða komin tvö ár síðan. Miðað við að það kosti um 12 milljarða að afnema krónu á móti krónu skerðingu er ríkið búið að spara sér 25 milljarða á þessu tímabili. Því fannst þeim alveg tilvalið að spara meira á og taka út þessa 0,5% hækkun. Þetta launaskrið — það gæti verið svolítið hættulegt að láta öryrkjana fá svona mikið.

En hvað skeði á sínum tíma þegar Pétur Blöndal gerði þessar breytingar? Hverjir af eldri borgurum voru skildir eftir? Þar er nefnilega ljóti leikurinn: Kerfisbreytingin skilaði ákveðnum hópi eldri borgara ekki krónu. Þeir fá nákvæmlega sömu krónutölu og öryrkjar í dag, eða 204.000 kr. Hvaða eldri borgarar voru það sem skildir voru eftir? Jú, það voru þeir sem voru með engan lífeyrissjóð. Hverjir í þeirra hópi voru ekki með neinn lífeyrissjóð? Það voru aðallega konur.

Það hlýtur að vera alveg stórfurðulegt í þessu samhengi að þeim sem voru búnir að vera heima, hugsa um börnin, hugsa heimilið, var bara refsað. Þær fengu ekki neitt. Ef þetta á líka að gera við öryrkjana við kerfisbreytingu, þ.e. skilja einhvern ákveðinn hóp eftir sem fær ekki neitt, þá ganga kerfisbreytingarnar aldrei upp. Við verðum að læra af þessum mistökum. Það eina sem kom út úr þessu var að þeir sem voru með lífeyrissjóð, fengu t.d. 25.000 kr., fengu 15.765 kr. í hækkun eftir skatt og borguðu þar af leiðandi 9.000 kr. í skatt af þessum 25.000 kr. En ef þeir fóru í 50 þúsundkallinn, ef þessir eldri borgarar fengu í 50.000 kr. úr lífeyrissjóði, hvernig kom það út? Hverju skilaði 25 þúsundkall í viðbót? Hann skilaði heilum 7.000 kr.

Setjum það í samhengi við fjármagnstekjuskattinn. Hvað voru þeir komnir þarna í mikla skattheimtu? 73%. Hvað innheimtum við í fjármagnstekjum? 22%. Hverjir eiga fjármagnstekjurnar? Stærsti hlutinn af ríkasta fólkinu? Hverjir eru það sem fá 7.000 kall út úr 25.000 kr. frá lífeyrissjóðnum sínum? Þeir sem verst standa í íslensku þjóðfélagi.

Virðulegur forseti. Þessi fjárlög eru á margan hátt stórfurðuleg. Ég gæti farið yfir stóran hluta af slíkum undarlegheitum en ég þarf auðvitað að grípa niður í fleiri málum. Við verðum líka að benda á að það er t.d. undarlegur niðurskurður í velferðarþjónustu í þessu samhengi. Þar á að skera niður enn eina ferðina og það á að skera niður fyrir árin 2018–2021. Þar eru gífurlegir biðlistar eftir þjónustu. Samtök í velferðarþjónustu hafa gert kröfu um að eitthvað verði gert í því. Einnig er annað sem ég hef áhyggjur af í fjárlagafrumvarpinu sem eiginlega hefur fallið útbyrðis, það er í samhengi við opinbert fé. Það vantar rétt rúmlega 100 millj. kr. í t.d. SÁÁ til að þeir fái það sem þeir þurfa til að hjálpa þeim sem eru við dauðans dyr. Á sama tíma ætlum við að fjölga aðstoðarmönnum þingmanna fyrir svipaða upphæð.

Við erum að láta hundruð milljóna til þingflokka en skera niður þar sem veikasta fólkið er, þar sem þörfin er mest. Við setjum milljarða í að bora fjall á móti Akureyri, förum milljarða fram úr kostnaðaráætlun.

Ef við rýnum í fjárlögin hef ég áhyggjur af því að núna er talað um svokallaðan fráflæðisvanda eldri borgara, að þeir flæði ekki nógu mikið frá spítölunum. Það sé einhver stífla þar. Hvar er stíflan? Jú, það er nýja sjúkrahótelið. Það er komið meira en ár og ekkert bólar á því. Hver er kostnaðurinn orðinn? Umframkostnaður? Verður hann tvöfaldur, 50%, 100%, meira? Ef við horfum á það í samhengi við fyrri framkvæmdir ríkisins hefur stærstur hluti þess sem farið hefur fram úr áætlun farið allt upp í 100% fram yfir.

Við erum með dæmi um opinberar framkvæmdir sem farið hafa 175% fram yfir og jafnvel 200% fram yfir.

Ég segi bara: Guð hjálpi okkur með nýja spítalakjarnann. Hvað fer hann mikið fram yfir? Verður eitthvað fylgst með því? Verður sama stjórnin þar og var á sjúkrahótelinu? Ég hef a.m.k. ekki séð neitt um að nú eigi að passa betur upp á kjarnann en sjúkrahótelið.

Síðan er það annað sem er alveg stórfurðulegt og kom upp í umræðu um daginn hjá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni. Það eru þær fullyrðingar hans um að öryrkjar hafi hækkað svo rosalega mikið og kjör þeirra séu svo rosalega flott að þeir séu komnir með fleiri hundruð þúsunda á mánuði. Ég held að þarna hafi hann bara sagt rangt frá vegna þess að hann hefur örugglega verið að meina okkur þingmenn. Það er alveg pottþétt að það voru ekki öryrkjar. 70% af þeim fá 204.000 og stór hópur fær miklu minna. Það er stór hópur þarna úti sem ekki hefur náð fullum réttindum einhverra hluta vegna. Fær bara brot af þeim réttindum, kannski 50% af þeim rétti sem þeir eiga. Ef þeir fá 50% af þeim réttindum sem eru aðeins 204.000 kr. sjáum við að það eru 102.000 kr.

Ég spyr: Treystir einhver sér til að lifa af 102.000 kr.? Nei. Og hvað á þá viðkomandi að gera? Fara á bæinn? En borgar bærinn eitthvað ef viðkomandi á maka sem hefur einhverjar tekjur? Nei.

Við segjum því við ákveðinn hóp fólks, og í þessum hópi eru sérstaklega konur — af hverju heyrist ekki meiri í þingkonum um þetta? Af hverju rísa konur ekki upp þeim til varnar? Þetta eru mæður sem eru búnir að ala upp börnin. Það er allt í lagi, þær eiga ekkert að fá betri kjör, það má skerða þær vel. Enginn rís upp og segir: Við skulum bara hætta þessu. Stoppum þetta núna og gerum eitthvað.

Komum á kerfi þar sem allir eru jafnir, komum á kerfi þar sem enginn fær undir 300.000 kr., skatta- og skerðingalaust. Það er ekki hægt að lifa af minna. Við vitum að 223.000 kr. er það sem velferðarráðuneytið segir að maður verði að fá að lágmarki útborgað til þess að lifa, fyrir utan húsnæðiskostnað.

En hvað er í boði ríkisins í dag? 204.000 kr. Þarna vantar 20.000 kall upp á. Hvað á viðkomandi að gera sem er með yfir 100.000 kr. í húsaleigu eða 200.000? Hann getur ekkert lifað. Þess vegna er fólk farið að búa í hjólhýsum niðri í Laugardal.

Það væri hægt að halda endalaust áfram að benda á það ranglæti sem er í þessu samfélagi.

Ég vil að lokum benda á annað, það er í sambandi við lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir eru komnir með 4.300 eða 4.400 milljarða í sína sjóði. Við erum með 28 lífeyrissjóði. Þeir velta 20 milljörðum á ári í kostnað. 20 milljarða kostnaður af 28 lífeyrissjóðunum þýðir 200 milljarðar á 10 árum — 200 milljarðar! Á 30 árum eru það 600 milljarðar. Við eigum að fækka sjóðunum niður í einn. Við eigum að setja það upp þannig að þessi kostnaður fari til fólksins. Fólkið á þennan pening, það er búið að vinna fyrir honum og á hann. Síðan þurfum við líka að taka það upp að skatta lífeyrissjóðinn áður en féð fer inn. Tökum skattinn af. Þeir þurfa ekki alla þessa peninga til að kaupa í sjálfum sér og eiga allt á Íslandi. Tökum þessa peninga, 50 milljarða. Notum þá fyrir fólkið í dag. Komum heilbrigðiskerfinu í lag. Látum engan svelta. Förum eftir því sem Katrín Jakobsdóttir sagði árið 2017. Það var frábær ræða.

Ég tek undir hvert einasta orð hjá henni en ég fæ ekki skilið hvernig hún gat sagt þetta á þessum tíma en ekki látið það inn í þetta frumvarp. Við verðum að taka krónu á móti krónu skerðinguna burt. Við vitum hverjir komu því á, það var ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þeim ber og þeir eru búnir að lofa mörgum sinnum að taka hana af. (Forseti hringir.) Ár eftir ár. En á að taka hana af með þessu frumvarpi? Nei.