149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir. Jú, auðvitað, ég er eiginlega með lausnina og hún er mjög einföld. Byrjum strax á sænsku leiðinni. Leyfum fólki að vinna með þessi tvö ár, öllum sem vilja og geta, sérstaklega þeim sem geta og vilja vinna á meðal öryrkja, eldri borgara: Farið að vinna. Finnið ykkur vinnu. Búið til vinnu. Engar skerðingar. 33% skiluðu sér ekki inn hjá sænska kerfinu þegar Svíar gerðu þetta. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi hjá okkur? Við erum að tala um starfsgetumat. Það eru á fjórða hundrað manns á biðlista eftir hlutastörfum hjá Vinnumálastofnun. (Gripið fram í.) Starfsgetumat fyrir hverja? Hvar eiga þeir að fá vinnu? Hjá ríkinu? Ríkið auglýsir ekki eftir fólki með skerta starfsgetu. Hjá bæjarfélögunum? Þau auglýsa ekki eftir fólki með skerta starfsgetu. Samtökum atvinnulífsins? Þeir vilja bara 50% bætur fyrir þetta á liðið: Farið þið bara út að vinna, út á guð og gaddinn.

Ég segi fyrir mitt leyti: Þetta er lausnin. Svo er líka annað sem við verðum að átta okkur á, sem gleymist í því samhengi, að stærsti hópur öryrkja er á aldrinum á 50–67 ára. Öryrkjum í þeim hópi á eftir að fjölga. Þetta er sá hópur sem á eftir að stækka mest. Þess vegna verðum við að passa okkur. Það sýnir okkur líka, og hæstv. ráðherra hlýtur að vera sammála mér, hvað sjúkraþjálfun, þegar þeir gáfu hana eftir og juku greiðslur til hennar, skilar ofboðslega hratt inn minnkun á stoðkerfisvandamálum. Þetta er mjög ódýr lausn. Ég væri ekki hérna í dag ef ég hefði ekki farið í gegnum sjúkraþjálfun. Það er ósköp einfalt. Þarna erum við að deila um hluti sem við (Forseti hringir.) sjáum árangur af og eigum að einbeita okkur að.