149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá get ég kannski byrjað að nota fyrri helming andsvars míns til að hrósa hv. formanni fjárlaganefndar fyrir að vera viðstaddur allan tímann og taka virkan þátt í umræðunni. Það tel ég mjög mikilvægt og ég mundi vilja sjá meira af því frá hæstv. ráðherrum, kannski síður í 2. umr., en 1. umr. var þannig. Hæstv. ráðherra í ríkisstjórn síðasta kjörtímabils var mjög duglegur við að vera viðstaddur og hv. formaður fjárlaganefndar hefur greinilega tekið það upp og er það mjög vel.

Varðandi spurninguna þá er gagnrýnin ekki alveg réttmæt einmitt af því að ætlunin í lögum um opinber fjármál er að ráðherra útskýri fyrir fram hvað hann ætli að gera við þær fjárheimildir sem hann fær, hvernig hann þýðir þær yfir í fjárveitingar. Það er t.d. gert í fylgiskjalinu þar sem það er útskýrt hvernig fjárheimildir skiptast niður í fjárveitingar til mismunandi stofnana til þriggja ára, sem er mikil framför frá fyrra ferli þar sem stofnanir voru bara frá ári til árs og vissu ekkert hvað þær fengju á næsta ári.

Vandamálið við það er að þó að stofnanir sjái þrjú ár fram í tímann hvernig fjárveitingar til þeirra þróast sjá þær ekki ástæðuna fyrir því að þær séu að hækka eða lækka. Það vantar þá tenginguna á milli stefnu og aðgerða stjórnvalda, hvernig þær þýðast yfir á mismunandi stofnanir. Er þessi stofnun að fara að taka við verkefninu eða hin stofnunin? Það er óljóst. Er þetta allt vegna launaviðbóta, uppreikninga eða er eitthvað að fara í mínus og eitthvað að koma út í plús á móti? Það er mjög óljóst. Það er það sem vantar helst þar, sem gerir þennan hluta gagnrýninnar réttmætan.