150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

Landsvirkjun.

[15:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég þakka forseta fyrir það og spyr hæstv. forseta hvort ekki sé tilefni til þess að efna sem fyrst til sérstakrar umræðu í þinginu um Landsvirkjun og hvernig því fyrirtæki er stjórnað, sérstaklega eftir að nú kom í ljós rétt áðan að hæstv. forsætisráðherra virðist telja það í verkahring forsætisráðherra hverju sinni að hlutast til um fjárfestingar Landsvirkjunar. Það kann að vísu að vera að hæstv. ráðherra hafi nefnt þetta til að búa sér til einhverja leið að gömlum dellutalpunkti hæstv. utanríkisráðherra í tengslum við sæstreng en það kemur þá bara í ljós. Ég tel a.m.k. tímabært, sérstaklega í ljósi þessa viðhorfs hæstv. forsætisráðherra, að við í þinginu ræðum það hvernig Landsvirkjun er stjórnað og eins er að sjálfsögðu löngu tímabært að þingið fái svör um það fjárfestingarverkefni sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur ítrekað spurt um, enda varðar það mikla grundvallarhagsmuni landsins og ástæðulaust að nýta heimild til að undanskilja Landsvirkjun frá því að svara í samræmi við upplýsingalög.