150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

fullgilding heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu.

275. mál
[16:23]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Kristin F. Árnason og Ögmund Hrafn Magnússon frá utanríkisráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu sem undirritaður var í Jakarta 16. desember 2018.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að samningurinn tryggi Íslandi víðtækan tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir allar helstu útflutningsvörur Íslands. Í samningnum er m.a. kveðið á um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar, verndun hugverkaréttinda, opinber innkaup, samkeppni, viðskipti og sjálfbæra þróun, auk hefðbundinna ákvæða um sameiginlega nefnd og lausn deilumála. Það kemur líka fram í greinargerðinni að útflutningur frá Íslandi til Indónesíu nam 175 milljónum á árinu 2018. Er aðallega um að ræða útflutning á sjávarafurðum. Innflutningur frá Indónesíu sama ár nam rúmum 1,2 milljörðum og er þar að mestu um að ræða innflutning á raftækjum, skóm og fatnaði. Íslensk fyrirtæki hafa jafnframt selt tækniþekkingu á sviði jarðvarma í Indónesíu.

Þessi fríverslunarsamningur hlýtur að vera fagnaðarefni meðal þeirra sem vilja veg frjálsra viðskipta sem mestan og nefndin leggur einmitt til að þessi tillaga verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, Smári McCarthy, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Aðrir nefndarmenn utanríkismálanefndar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.