150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[17:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 488. Þetta er mál nr. 382. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og tollalögum og varðar úthlutun tollkvóta.

Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á grundvelli tillagna starfshóps um endurskoðun á regluverki við úthlutun tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur. Starfshópurinn var skipaður í júní árið 2018 og í honum áttu sæti auk fulltrúa ráðuneytisins fulltrúar Neytendasamtakanna, Bændasamtaka Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Tilefni skipunarinnar var m.a. nýir samningar milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur sem voru undirritaðir 17. september árið 2015 og tóku gildi 1. maí árið 2018 þar sem tollkvótar fyrir landbúnaðarvörur voru auknir til mikilla muna. Hlutverk starfshópsins var að endurskoða núverandi fyrirkomulag og finna leiðir til að koma ávinningi sem skapast með úthlutun tollkvóta í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs.

Megintilgangurinn með frumvarpinu er að einfalda og skýra reglur um úthlutun tollkvóta og breyta aðferðafræði úthlutunarinnar þannig að dregið verði talsvert úr kostnaði þeirra sem fá úthlutað tollkvóta í gegnum útboð. Markmiðið er að stuðla að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur en gæta einnig að hagsmunum innlendra framleiðenda. Áhersla er lögð á að regluverkið byggi á sanngirni og jafnræði meðal þeirra sem sækjast eftir tollkvótum. Þess er vænst að þær breyttu aðferðir við úthlutun tollkvóta sem lagðar eru til með frumvarpinu leiði til þess að fyrirsjáanleiki aukist og að fæðuöryggi sé tryggt þar sem innlend landbúnaðarframleiðsla gegnir lykilhlutverki.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á útboðsferli tollkvóta. Þegar eftirspurn eftir tollkvótum er meiri en framboð þeirra er þeim úthlutað með útboði og er lagt til breytt fyrirkomulag slíkra útboða. Framkvæmd þess fyrirkomulags sem lagt er til í frumvarpinu er í meginatriðum svipuð og tíðkuð hefur verið undanfarin ár við úthlutun kvótanna og er vel þekkt meðal umsækjenda þar sem útboðið er lokað og magn ekki breytilegt. Grundvallarbreytingin er sú að lægsta samþykkta verð útboðs ákvarðar verð alls tollkvótans. Með breytingunni verður þannig innleitt fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta sem nefnt hefur verið jafnvægisútboð, líkt og nánar er gerð grein fyrir í greinargerð frumvarpsins. Auk þess er unnið að því að framvegis verði stjórnsýsla í tengslum við úthlutun tollkvóta rafræn.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem fylgja auknum innflutningi landbúnaðarvara á grundvelli milliríkjasamninga á komandi árum eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á 65. gr. A. búvörulaga þannig að heimildir til úthlutunar svokallaðra opinna tollkvóta verði afnumdar í núverandi mynd. Lagt er til að árlegt úthlutunartímabil tollkvóta fyrir árstíðabundnar vörur verði lögfest til að mæta þörf á innanlandsmarkaði. Með því verða þær vörur á lægri tollum á tilgreindum tímabilum sem eru byggð á sögulegri úthlutun síðastliðinna tíu ára.

Varðandi kjöttegundir er talið að auknir tollkvótar samkvæmt milliríkjasamningum sem fyrir liggja muni mæta þörf á innanlandsmarkaði að undanskildum svínasíðum. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um innflutning síðustu ára er talið að innlend framleiðsla muni að öllum líkindum ekki anna eftirspurn eftir svínasíðum sem hefur farið ört vaxandi undanfarin ár. Því er lagt til að árlega verði úthlutað 400 tonna tollkvóta til að mæta eftirspurn á innanlandsmarkaði.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara verði lögð niður. Miðað við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á framkvæmd úthlutunar tollkvóta þykir slík nefnd ekki þjóna tilgangi lengur. Ráðgjafanefndin starfar samkvæmt 87. gr. búvörulaga og skal vera til ráðuneytis um ákvæði laganna er varða inn- og útflutning landbúnaðarvara. Hlutverk nefndarinnar er skilgreint frekar í lögum en gert er ráð fyrir því að hún sinni umtalsverðri upplýsingaöflun um stöðu á markaði til að kanna hvort skilyrði séu til staðar til úthlutunar tollkvóta. Erfitt, og raunar ómögulegt, hefur reynst fyrir nefndina að leggja mat á framboð og eftirspurn einstakra vara hverju sinni þar sem upplýsingar um t.d. þróun framleiðslumagns og eftirspurnar eru vandfundnar. Nefndin hefur því í flestum tilvikum þurft að treysta á yfirlýsingar framleiðenda og dreifingaraðila og hefur þetta fyrirkomulag sætt mikilli gagnrýni. Þá hafa nefndinni í einhverjum tilvikum borist misvísandi upplýsingar sem erfitt hefur reynst að sannreyna. Síðan umræddri nefnd var komið á laggirnar hafa aðstæður á markaði auk þess breyst til muna og talsverð reynsla er komin á þörfina á svokölluðum opnum tollkvótum. Með hliðsjón af aukningu á tollkvótum vegna tollasamnings Íslands við Evrópusambandið auk þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu þykir það ekki þjóna tilgangi að nefndinni sé haldið við þar sem meginhlutverk hennar hefur verið að meta markaðsaðstæður hverju sinni þegar tilkynnt hefur verið um skort á markaði.

Að lokum er lögð til breyting á 12. gr. tollalaga sem kveður á um lögfestingu fjárhæðar tolls. Markmið þessarar breytingar er að fjárhæð tolls verði ákveðin með lögum með hliðsjón af kröfu um 40. og 77. gr. stjórnarskrár. Með því er auk þess gert fyrirsjáanlegra hvaða fríðindi fylgja tollkvótunum.

Líkt og hér hefur verið rakið er markmið frumvarpsins fyrst og fremst að einfalda og skýra regluverk er varðar úthlutun tollkvóta. Tilætluð áhrif þeirra breytinga eru aukinn ábati til neytenda í formi aukins vöruúrvals, lægra vöruverðs og aukinnar samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur. Áhrif af samþykkt frumvarpsins hljóta þannig að teljast neytendum til hagsbóta sem og innflytjendum og framleiðendum matvæla þar sem verið er að auka fyrirsjáanleika vegna úthlutunar á tollkvótum.

Þá má geta þess að í skýrslu framangreinds starfshóps var rætt um mikilvægi þess að lækkaðar álögur á vörum á neytendamarkaði skili sér til neytenda og þá í lægra verði. Var bent á að styrkja mætti eftirlit á markaði þegar slíkar breytingar eiga sér stað og fylgjast sérstaklega vel með fákeppni og verðþróun á dagvörumarkaði til að tryggja hag almennings. Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er nú þegar hafin vinna við samstarfsverkefni sem stuðlar að auknu eftirliti og gagnasöfnun um verðlag innfluttra og innlendra landbúnaðarvara og er áætlað að það verkefni geti hafist fyrir lok þessa árs.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.