151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

svör við fyrirspurnum.

[13:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. forseta á því að í gær voru lögð fram svör við þremur fyrirspurnum sem fjalla um fjölda íbúða sem tveir bankar í eigu ríkisins, Íslandsbanki og Landsbanki, eignuðust á tímabilinu 2008–2019. Í svörunum er það útskýrt að ekki sé hægt að veita efnislegt svar við fyrirspurninni, m.a. með vísan til 57. gr. laga um þingsköp. Samt sem áður var í greinargerð með öllum fyrirspurnunum, að ráði þingfundaskrifstofu, tekið fram að málefni fjármálastofnana eigi undir málefnasvið fjármála- og efnahagsráðherra og að forseti Alþingis hafi með undirskrift sinni ákvarðað að fyrirspurnin uppfyllti skilyrði 57. gr. laga um þingsköp. Ég leyfi mér að fara þess á leit við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því að þessum fyrirspurnum verði svarað með efnislegum hætti.