151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

svör við fyrirspurnum.

[13:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Í gær barst mér svar frá fjármála- og efnahagsráðherra. Ég hafði spurt um sölu á fullnustueignum Landsbankans á tilteknu árabili. Í svari ráðuneytisins segir:

„Þær upplýsingar sem fyrirspurnin lýtur að eru ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu eða stofnunum þess. Landsbankinn hf. og tengd félög eru ekki ríkisstofnanir eða félög sem annast stjórnsýslu eða veita opinbera þjónustu í skilningi framangreinds ákvæðis“, þ.e. 3. mgr. 49. gr. þingskapalaga.

Þetta er ómerkilegur útúrsnúningur, herra forseti, vegna þess að hlutafé í Landsbanka Íslands hf. er að 97% í höndum eins manns sem er fjármálaráðherra. Ég get ekki sætt mig við það enn einu sinni að maður sé dreginn á asnaeyrunum aftur og aftur í gegnum þetta mál. (Forseti hringir.) Því heiti ég á forseta að koma strax til liðs svo að ekki þurfi að bíða önnur þrjú ár eins og þurfti að gera í tengslum við fyrirspurn um sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs.