151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:48]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Beðist er velvirðingar á því að hafa riðlað hér mælendaskránni. Það helgaðist af því að einhverjir tóku sig af mælendaskrá og aðrir sem ég hefði frekar átt von á að myndu nýta allan sinn tíma í ræðurnar sínar voru stuttorðari en venja er. En um leið þakka ég hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að hlaupa í skarðið. Það er nú kannski ekki undra að við hv. þingmaður séum nokkuð samtaka í málflutningi okkar enda eigum við það sameiginlegt að vera mikið áhugafólk um umhverfismál og um að vinna að umhverfismálum sem þetta frumvarp snýst að sjálfsögðu um.

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp hæstv. umhverfisráðherra um stofnun hálendisþjóðgarðs sem við umhverfisverndarsinnar höfum beðið lengi eftir. Stofnun miðhálendisþjóðgarðs hefur enda verið eitt helsta baráttumál umhverfisverndarsinna á Íslandi um áratugabil, leyfi ég mér að staðhæfa. Það er því gleðilegt að frumvarp um miðhálendisþjóðgarð sé loksins komið hér fram. Sú sem hér stendur hefur og mun ávallt vera mikil stuðningskona þess að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands enda væri það gríðarlega mikið framfaraspor að friðlýsa einstök, ósnert og óbyggð víðerni miðhálendis Íslands og sýna þeim svæðum þar með þá virðingu sem þau eiga skilið. Með því að friðlýsa miðhálendið sýndum við líka þeim kynslóðum sem á undan okkur hafa farið, og hafa borið hag einstakrar náttúru miðhálendisins fyrir brjósti, virðingu og þakkir en ekki síst værum við með því að friðlýsa miðhálendið og stofna utan um það þjóðgarð að skilja þessa einstöku náttúru eftir í umsjón framtíðarkynslóða og tryggja þeim aðgang að því einstaka svæði á heimsvísu sem víðfeðmt hálendi Íslands er. Það er líka gott að frumvarpið sé nú loks komið fram af hálfu hæstv. umhverfisráðherra, þremur árum eftir að kveðið var á um það í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og eftir alla vega tveggja ára samráðsvinnu og kynningarferli um allt land meðal ólíkra aðila.

Herra forseti. Þrátt fyrir að markmið með frumvarpinu séu, eins og þau koma fyrir í 3. gr. þess, mörg hver göfug, falleg og frábær, eins og að vernda náttúru og sögu þjóðgarðsins, vernda landslag, víðerni, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar og tryggja tilvist heildstæðra vistkerfa og náttúrulegra ferla, verð ég að játa að í mér er samt beygur, beygur við að þetta langþráða frumvarp sem við fjöllum um hér um beri því miður of mikil merki um of mikla eftirgjöf gagnvart þeim öflum sem líta á miðhálendið sem orkugjafa og til orkunýtingar og leggja of mikla áherslu á atvinnuuppbyggingu í tengslum við málið. Mér fannst framsaga hæstv. umhverfisráðherra líka bera merki um það. Að mínu viti og mínu mati varð honum kannski aðeins of tíðrætt um atvinnuuppbyggingu þrátt fyrir að ég sé sammála honum um að með stofnun miðhálendisþjóðgarðs getur tækifærum fyrir græna atvinnusköpun fjölgað og verðmæt störf munu skapast þar. En atvinnuuppbygging er ekki og á ekki að vera meginmarkmið með stofnun miðhálendisþjóðgarðs heldur verndarsjónarmiðin. Mestan beyg og ótta ber ég í brjósti yfir 23. gr. frumvarpsins sem ber skýrust merki eftirgjafar gagnvart orkunýtingaröflum. Þar vil ég tiltaka setningar sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„Nýjar virkjanir má starfrækja á jaðarsvæðum Hálendisþjóðgarðs hafi hin nýja virkjun verið skilgreind í orkunýtingarflokki í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar sem samþykkt hefur verið á Alþingi á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun og að undangengnu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.“

Hér er galopnað á byggingu nýrra virkjana á svokölluðum jaðarsvæðum nýs miðhálendisþjóðgarðs. Það er áréttað síðar í 23. gr. með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ef virkjunarkostur er að undangengnu mati fluttur í orkunýtingarflokk úr biðflokki er heimilt að gera ráð fyrir viðkomandi virkjun á jaðarsvæði Hálendisþjóðgarðs enda hafi verndar- og orkunýtingaráætlun með breyttri flokkun virkjunarkostsins verið samþykkt á Alþingi í samræmi við ákvæði laga um orkunýtingar- og verndaráætlun.“

Um hvað erum við að tala þarna? Jú, virkjunarkostir á jaðarsvæðum miðhálendisþjóðgarðsins á borð við Botnafjöll, Grashaga og Sandfell á Torfajökulssvæðinu eru hér með galopin fyrir því að vera flutt í nýtingarflokk. Frumvarpið kveður beinlínis á um að heimilt sé að virkja þessa kosti. Þarna eru líka undir Hveravellir á Kili, Hágöngur á miðjum Sprengisandi, Núpsárvirkjun við Núpsá, hin umdeilda Hverfisfljótsvirkjun við Hverfisfljót og Hólmsárvirkjun. Enginn þessara kosta er lengur undir verndarhatti friðlýsingar miðhálendisþjóðgarðshugtaksins heldur er beinlínis kveðið á um að nýjar virkjanir megi starfrækja á jaðarsvæði þjóðgarðsins sem og að heimilt sé að virkja kosti í biðflokki í jaðri þjóðgarðsins. Það getur varla gengið upp, í langþráðu frumvarpi um miðhálendisþjóðgarð, að þar sé beinlínis opnað á nýjar virkjanir í jaðri þjóðgarðsins og að heil grein í frumvarpinu tali eingöngu um þetta. Það getur varla gengið upp eða farið saman við skilgreiningar á þjóðgarði sem kveða á um að allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins séu bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist.

Ég get varla minnst virkjunarkostinn innan þjóðgarðsins sem enn er haldið inni, Skrokköldu sem mun með tilheyrandi virkjunarbyggingum, uppbyggðum heilsársvegi, línulögnum og stórauknu raski á svæðinu brjóta enn frekar upp landslagsheildir á víðernum vestan Vatnajökuls í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs og Vonarskarðs og inni í fyrirhuguðum miðhálendisþjóðgarði. Það er varla í takti við hugmyndir þær sem fram koma í göfugri markmiðssetningunni með frumvarpinu um að vernda beri ósnert og óbyggð víðerni á miðhálendi Íslands. Eða hvað? Það samræmist alla vega ekki hugtakinu samkvæmt skilgreiningu náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, þar sem kveðið er á um að óbyggð víðerni séu svæði í óbyggðum þar sem hægt er að njóta einveru og náttúru án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja. Þessari 23. gr. verður einfaldlega að breyta í meðferð hv. umhverfis- og samgöngunefndar, herra forseti. En því miður ber ég ekki mikla von í brjósti til þess miðað við málflutning stjórnarþingmanna sem hér stigu á stokk í upphafi umræðunnar. Gagnrýni stjórnarþingmanna á málið, þeirra sem hafa stigið í ræðupúlt Alþingis í umræðunni í dag, er allsérkennileg og þung og mikil. Þeir stjórnarliðar sem komu hingað í ræðupúlt Alþingis til að fjalla um frumvarp hæstv. umhverfisráðherra, gagnrýna það og efast um það eru þeir stjórnarliðar sem sitja langflestir í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ekki má gleyma gagnrýni formanns hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem sýnir að málið er ekki á leið í neina sáttameðferð í hv. nefnd. Hafandi setið í eitt og hálft ár á þessu kjörtímabili í hv. umhverfis- og samgöngunefnd verð ég að játa að ég er alls ekki vongóð um að nefndin eigi eftir að bæta málið náttúruverndarsjónarmiðum til heilla.

Margir af þeim stjórnarliðum sem hér stigu á stokk voru alls ekki að velta fyrir sér umhverfis- eða náttúruverndarsjónarmiðum heldur valdi sveitarfélaganna. Og jú, sveitarfélögin sjálf hafa komið fram í samráðsgátt með athugasemdir sínar og talað um skipulagsvald sitt, að það megi alls ekki skerða. Ég tilheyri reyndar þeim hópi sem tekur undir með ályktun stjórnar Landverndar fyrr á þessu ári um að frumvarpið veiti sveitarstjórnarfólki í raun og veru of mikil völd á kostnað sérfræðiaðstoðar, með fullri virðingu fyrir sveitarstjórnarfólki. Ég held að við þurfum að hefja okkur yfir þennan ágreining um vald sveitarstjórna og sveitarfélaga og einblína á tilgang frumvarpsins sem er verndarsjónarmiðið. Það sjónarmið gagnast okkur öllum, hvort sem við erum kjörnir fulltrúar hér á þingi, kjörnir fulltrúar í sveitarfélögunum, almennir íbúar þessa lands, búum hér á höfuðborgarsvæðinu eða búum í meiri nálægð við fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð. Öll munum við eiga hlutdeild í væntanlegum miðhálendisþjóðgarði. Og öll munum við eiga aðgengi að því verndaða svæði sem undir liggur.

Herra forseti. Ég vildi halda þessum sjónarmiðum á lofti, þ.e. þessum virkjunaráformum sem opnað er á í 23. gr. sem og of mikilli áherslu á skipulagsvald sveitarstjórna sem ég veit að hæstv. umhverfisráðherra hefur átt gott samtal við og reynt að miðla málum. En á stundum eru málamiðlanirnar of miklar. Meginmarkmiði lagafrumvarpsins er vikið aðeins til hliðar og frekar verið að velta fyrir sér skertu skipulagsvaldi þegar raunin er sú að öll sveitarfélög í nágrenni þjóðgarðsins á Snæfelli og Vatnajökulsþjóðgarðs hafa með einhverju móti grætt á því að vera í nánd við þá, samfélagslega, út frá atvinnuuppbyggingu, út frá menntun, út frá auknum lífsgæðum.

Herra forseti. Eins og heyrist í ræðu minni styð ég miðhálendisþjóðgarð og mun ávallt gera það. En ég vonast heitt og innilega til þess að málið breytist ekki það mikið í meðförum hv. umhverfis- og samgöngunefndar að meginmarkmiðum frumvarpsins verði vikið til hliðar og önnur sjónarmið á borð við atvinnuuppbyggingu, frjálsa för og skipulagsvald vegi þyngra í meðferð hv. nefndar, heldur meginsjónarmiðið sem er umhverfisverndarsjónarmiðið. Ég vil líka gjalda varhuga við því að 23. gr. haldist óbreytt. Ég myndi gjarnan vilja beina þeim orðum til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að taka þá grein til ítarlegrar skoðunar og skoða nákvæmlega hvað verið er að gera þegar kemur að því að opna á virkjunarframkvæmdir í jaðri og á jaðarsvæðum miðhálendisþjóðgarðs. Þó svo að kveðið sé á um að Torfajökulssvæðið og önnur svæði sem eru nánast hluti af miðhálendisþjóðgarðinum séu í jaðrinum á þjóðgarðinum eru þau órjúfanlegur hluti af miðhálendinu. Við getum varla slitið það í sundur og sagt: Hérna megin við þennan hól má virkja en hinum megin við hólinn ætlum við að hafa ósnert, óbyggð víðerni. Það gengur einfaldlega ekki upp.

Ég reyni að vera bjartsýn og vongóð um að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fjalli um málið með umhverfissjónarmiðin að leiðarljósi, að nefndarmenn horfi til meginmarkmiðs frumvarpsins og þess að búið er að gera það miklar breytingar á frumvarpinu frá upphaflegu markmiðunum að fyrir marga umhverfisverndarsinna er jafnvel of langt gengið. Ég óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd því góðs gengis í vinnu sinni og vonast enn og aftur til þess að umhverfisverndarsjónarmiðin verði höfð í hávegum. Það er megininntakið og á að vera megininntakið í þess konar frumvarpi sem við erum að fjalla um hér í dag.