151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú kemur fram í frumvarpsdrögunum að ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða stækkun þjóðgarðsins og friðlýsa landsvæði utan þess landsvæðis sem tilgreint er í 2. málslið 2. gr. enda liggi fyrir samþykki landeiganda og viðkomandi sveitarstjórnar. Ef út í það yrði farið og ráðherra eða ríkisstjórn þess tíma gæti með einhverjum hætti þvingað sveitarfélögin eða fengið þau til að samþykkja slíkt, erum við þá mögulega búin að taka inn í þjóðgarðinn þau svæði sem hv. þingmaður taldi hér upp? Kannski er ég ekki búinn að sökkva mér nógu djúpt í þetta. Ég hef þann fyrirvara á því. En ég skil það samt þannig að þær flokkanir og viðmiðanir sem á að taka upp í þjóðgarðinum í heild eða á svæðum innan hans — eins og þær sem ég nefndi áðan í sambandi við IUCN-flokkunina sem minnst er á neðst á bls. 18 og efst á bls. 19 í greinargerðinni — loki fyrir möguleika á orkunýtingu. Viðurkenni menn þá flokkun og festi í lög og reglur og slíkt sé búið að loka fyrir orkunýtingu inni á því svæði. Það getur vel verið að hv. þingmaður eigi eftir að sökkva sér ofan í þennan kafla líka en mér finnst skipta máli að fyrir liggi hver meiningin er með því að taka upp flokkunina. Varðandi fyrra samtal okkar stendur þetta með raflínurnar eftir. Ég hef áhyggjur af því að það kalli á aukinn kostnað. Svo getum við kannski tekið langar rökræður um það síðar hvort betra sé fyrir komandi kynslóðir að búa til þjóðgarð núna eða gera ekki neitt.