152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er á svipuðum stað í sambandi við biðlista. Við sáum í fréttum gærdagsins viðtal við unga stúlku sem átti að bíða í tvo mánuði en er búin að bíða í nærri tvö ár, hún er að fara til Póllands í aðgerð upp á 1,5 milljónir sem hún þarf að borga úr eigin vasa. Nýlega hafði samband við mig maður sem er vinnandi, búinn að vera á biðlista í nokkra mánuði og sér fram á að missa vinnuna. Hann spurði: Er það eina sem ég get gert að taka lán eða yfirdrátt og fara á einkareknar stofur til að fá lausn minna mála? Þetta er nefnilega spurningin Á sama tíma og við höfum verið að semja t.d. við starfsfólk á Klíníkinni um að koma á Landspítalann og vinna erum við ekki að semja til að sjá til þess að við þurfum ekki að senda fólk í tvöfalt eða þrefalt kostnaðarsamari aðgerðir erlendis.

Biðlistarnir lengjast og lengjast. Það átti að koma á laggirnar sérstakri biðlistaaðgerðastofu á Akranesi. Hvernig standa þau mál? Er það komið í farveg?

Síðan er það hitt: Hvaða skoðun hefur ráðherrann á því að láta ungt fólk bíða eftir lífsnauðsynlegum aðgerðum, ekki svo mánuðum skiptir heldur árum? Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hefur hann lent á biðlista? Veit hann hvernig er að vera á biðlista? Gerir hann sér grein fyrir því hvernig er að vera á biðlista og bryðja rótsterk ópíumlyf svo mánuðum skiptir?